Færsluflokkur: Bloggar

Kuldi, próf og smá horror!

Hér er búið að vera óeðlilega kalt síðustu daga, svona um -20° C. Í dag finnst okkur vera frekar hlýtt því það er bara -3° C ...

Annars taumlaus gleði í gangi hjá mér. Í því sem ég var að læra á fullu fyrir próf (því núna eru "finals" í gangi), þá fann ég fyrir tilviljun titil á kvikmynd sem ég hef verið að hugsa um í næstum því 15 ár!

Já, 15 ár!

Þetta byrjaði allt einhvern tímann árið 1992 þegar ég sá hina merkilegu heimildamynd Fear in the Dark, sem fjallaði um hryllingsmyndir og alls kyns hluti þeim tengdum. Í þessari mynd voru sýnd brot úr fjölmörgum hryllingsmyndum sem hafa síðar komist í mikið uppáhald hjá mér: Opera, Hellraiser, Texas Chain Saw Massacre, og fleiri fleiri.

Fyrir utan allar "frægu" myndirnar sem skörtuðu íkónum sem var mjög auðvelt að þekkja (s.s. Pinhead, Michael Myers eða Gunnar Hansen), þá var slatti af myndum sem ég þekkti ekki þá en hef hægt og rólega verið að bera kennsl á síðan. Þar ber kannski helst að nefna fyrrnefnda óperumynd, enda var flottasta senan úr henni eitt af brotunum í myndinni.

Hins vegar hefur ein mynd - eða brot úr einni mynd - alltaf setið eftir í huga mér, en fyrir utan brotið þá vissi ég ekkert um myndina. Og þar sem það eru talsvert mörg ár síðan ég sá Fear in the Dark þá var ég ekki einu sinni viss um að ég mundi rétt eftir senunni sem var þar sýnd. Mig rámaði í hóp af fólki ... svo var maður sem hristist allur til ... og kona sem fylgdist hrædd með ... og svo allt í einu var fullt af blóði og ógeði sem kom upp úr manninum og ... já, við skulum bara segja að það sem gerðist svo var nógu eftirminnilegt til að skilja eftir ógleymanlegt far í minningum mínum.

Og í dag, skal ég ykkur segja, í dag þá fann ég ekki bara titilinn á þessari mynd heldur SJÁLFA SENUNA! Á YouTube! Guði sé lof fyrir YouTube!

Mér finnst eins og ég hafi verið að ljúka við heilapúsluspil sem ég hef verið að setja saman síðan 1992. Þetta eru mikið gleðitíðindi.

Dömur mínar og herrar, ég kynni fyrir ykkur indónesísku hryllingsmyndina Ratu ilmu hitam (Queen of Black Magic) frá 1979. **VARÚÐ** Þetta er alls ekki fyrir viðkvæmar sálir! Þið eigið aldrei eftir að gleyma þeim myndum sem koma fram í þessari klippu. Trúið mér! Í 15 ár hef ég munað þessi andartök ...


Smásagan þarna ...

Vegna FJÖLDA áskorana (:p) hef ég ákveðið að birta smásöguna sem ég talaði um í færslunni hér fyrir neðan.

Ég bjó þess vegna til glænýtt blogg þar sem ég mun kannski birta eitthvað fleira í framtíðinni.

Enjoy!

Montblogg

Já, ég bara verð!

Ég er í einum kúrs hérna sem heitir "Creative Writing" þar sem við skrifum ljóð og smásögur og svoleiðis. Ég hef nú aldrei verið neitt sérstaklega mikið fyrir ljóðin, svo ég fókusaði ekkert sérstaklega mikið á þann part, en núna erum við í smásögunum og vorum að fá fyrstu söguna okkar til baka með kommentum frá kennaranum.

Minni sögu fylgdi heil blaðsíða af kommentum sem enduðu á þessum orðum: "Anyway, this is such an accomplished piece of writing. Consider sending it out for publication. Thank you!"

!!!

Já, þetta gleður mitt litla hjarta! Sérstaklega þar sem ég þjáist af ólæknandi sjúkdóm sem lýsir sér þannig að mér finnst allt sem ég geri lélegt um leið og ég sendi það fram mér - þó mér finnist það kannski æðislegt á meðan ég er að skrifa það. Um leið og ég sleppi takinu, þá er það strax orðið ömurlegt. Svo það er fínt að fá svona "professional" álit til að slá í mig eitthvað vit.

Jólakveðja frá Heidi Klum

Photo Sharing and Video Hosting at Photobucket

Núna er kominn 1. desember sem þýðir að nú má hlusta á jólalög aftur! Og í tilefni dagsins er byrjað að snjóa á fullu hérna í St. Paul. Þeir kalla þetta snjóstorm, innfæddir, sem er ekki það sama og íslenskur snjóstormur. Það er t.d. voða lítill vindur. En hins vegar er búist við því að það verði 6 þumlunga snjófall bara í dag! Það eru rúmlega 15 sentímetrar af snjó!

Ef þessi dagur er ekki tilvalinn til að hlusta á jólalagið hennar Heidi Klum, Wonderland, þá veit ég ekki hvað. Ef þið hlustið á það núna, þá þurfið þið aldrei aftur að heyra það og þá verða jólin kannski bærilegri?



Hræðilegasta jólalag allra tíma? Eða það besta?

Ég er a.m.k. búinn að hlusta á nokkur ágæt jólalög í dag. "Ég hlakka svo til" er náttúrulega alltaf skemmtilegast.

Hvað er uppáhaldsjólalagið ykkar?

It's happening again!!!

Avril er komin yfir mig, aftur. Þetta er seinna skiptið í ár.

Og núna er orðið virkilega kalt úti. Við vöknuðum við -12 stiga frost og engan hita á ofninum! Ofninn er sem betur fer kominn í lag núna.

Svo fékk ég 9.8 (= A) fyrir ritgerð sem gildir 20% af lokaeinkunninni minni í enskum bókmenntum! Veió!


Matur matur matur

Í gær var Thanksgiving hátíð hérna í Am'ríku og ég var svo heppinn að fá heimboð til alvöru am'rískrar fjölskyldu í alvöru am'rískan Thanksgiving kvöldmat. Það var semsagt hún Katie Goldammer, herbergisfélagi Aliciu frá Frakklandi, sem bauð mér, henni og Juliu frá Þýskalandi heim til sín, sem var voða voða yndælt af henni.

Það eina sem við vissum um þessa skemmtilegu hátíð er sú staðreynd að fólk borðar ofsalega mikið allan daginn. Sounds good.

Týpískur amerískur Þakkargjörðarmatseðill er ca. eftirfarandi:

#1 Forréttir - Forrétti skal borða á meðan horft er á fótboltaleikinn í sjónvarpinu, eins og við gerðum (með öðru auganu ...) Hér getur heimbjóðandinn boðið upp á ýmislegt. Ég frétti af fólki sem bauð upp á snittur með reyktum laxi, meðal annars. Hjá Katie fengum við kex og osta og svo tortilla flögur og salsa sósu.

#2 Aðalréttur - Númer eitt, tvö og þrjú er kalkúnninn góði. Því stærri því betri. Hér er talað um Turkey-massacre season ... Nice. Kalkúnninn er svo fylltur með mjög góðri fyllingu og er borðaður með kartöflumús og trönuberjasósu (sem var reyndar trönuberjahlaup í okkar veislu). Með þessum rétti er einnig boðið upp á brauð, brúnaðar sætar kartöflur og sveppa-bauna-rétt einhvern (mjög góður). Goldammer fjölskyldan bauð einning upp á fáránlega gott ís-hlaup og óáfengt hvítvín.

#3 Eftirréttur - Ef það er eitthvað pláss eftir, þá er úr mörgu að velja þegar kemur að eftirréttum. Venjulega, eða svo er mér sagt, er boðið upp á annað hvort apple-pie eða pumpkin-pie en í minni veislu var boðið upp á þrjár mismunandi bökur - þessar tvær og svo pecan-pie líka. Eplabakan var heimagerð og var framreidd með annað hvort vanilluís eða þeyttum rjóma. Svo var líka kaffi með.

Ég sver það að eplabakan var það besta sem ég hef nokkurn tímann smakkað hérna í Bandaríkjunum. Ég er ennþá að hugsa um hana. Því miður var ég svo sprunginn eftir hana að mér tókst ekki að smakka hinar bökurnar, en þær voru örugglega mjög góðar líka.


Goldammer fjölskyldan (mínus pabbi og bróðir) með skiptinemunum!

Heima hjá Katie var mjög gaman. Fjölskyldan var alveg súper-amerísk. Pabbinn lá í sófanum að horfa á fótboltann þegar við mættum og stóð varla upp (og sagði ekki orð) fyrr en maturinn var næstum því tilbúinn. Mamman var að kenna eldri systur Katie að elda máltíðina svo hún lá mestallan tímann í rauðum Laz-Y-Boy stól sem var umkringdur öllu dótinu hennar - fartöluv, skjölum, pilluboxi - sem hún gat teygt sig í án mikillar fyrirhafnar. Hún var líka steinasafnari mikill og var með íslenskan stein um hálsinn sem var þriggja milljón ára gamall og finnst aðeins á Íslandi og á Grænlandi. Þegar maturinn var búinn settist hún aftur í stólinn sinn fyrir framan sjónvarpið því það voru þrjár eða fjórar Johnny Depp myndir í sjónvarpinu - hún er mikill aðdáandi. Bjó meira að segja til Johnny Depp avatar-karakter fyrir Nintendo Wii íþróttaleik og hann er einn af vinsælustu karakterunum á netinu.

Meðal annarra fjölskyldumeðlima voru systkini Katie, bróðir og systir, og svo hjartveikur hundur og orðljótur páfagaukur sem var nýbúinn að læra að segja "Goddammit"! Já, þetta var mjög skemmtilegur dagur!

Nokkrum dögum fyrr fór ég á Tónleika #3 hérna í Minnesota. Ég fór að sjá M.I.A. sem kannski einhverjir kannast við. Ef ekki, þá er alveg þess virði að kynna sér þessa mögnuðu konu. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að lýsa tónlistinni hennar, en þið getið hlustað sjálf. Uppáhaldslagið mitt með henni er Jimmy ...



En vinsælasta lagið um þessar mundir er örugglega Boyz ...



Og svo er Paper Planes alveg magnað lag ...

Tónleikarnir voru hreint út sagt GEÐVEIKIR! Ég hef ekki farið á marga tónleika um ævina, en þetta var alveg pottþétt magnaðasta crowd sem ég hef upplifað. Stemningin á staðnum (First Avenue - stofnaður af sjálfum Prince og sést talsvert í Purple Rain bíómyndinni) var ótrúleg. Fólk var alveg að missa sig yfir þessari listakonu. Ég held að ég hafi síðast séð fólk svona æst þegar ég sá Fugees árið 1996 - og ég er örugglega búinn að ýkja upp þær minningar umtalsvert.

Núna er semsagt Thanksgiving break svo það er frekar rólegt á heimavistinni. Flestir skólakrakkarnir eru farnir heim yfir helgina. Flestir nema við skiptinemarnir. Og herbergisfélaginn minn, sem virðist ekki eiga sér neitt almennilegt líf. Hann húkir inni í herberginu annað hvort fyrir framan tölvuna eða fyrir framan sjónvarpið og virðist ekki gera neitt af viti. Svo er hann næstum því búinn að snúa sólarhringnum gjörsamlega við - svaf í dag t.d. til rúmlega fimm og fer ekki að sofa fyrr en ... einhvern tímann. Ég er alltaf sofnaður þegar hann fer að sofa. Það er alveg magnað hvað hann getur nýtt daginn illa. Ég er mjöööööög pirraður yfir því að geta ekki gert neitt inni í herberginu því að hann er sofandi þar. Ef hann verður svona á morgun þá gef ég honum framyfir hádegi og svo dreg ég gluggatjöldin frá glugganum, kveiki ljósin og blasta nýja Girls Aloud laginu ... Ain't do doubt about it, ain't no doubt about - GIRL OVERBOARD!

Úúúú og eitt annað ... í tilefni af Thanksgiving - hérna er gervitrailerinn hans Eli Roths fyrir hryllingsmyndina "Thanksgiving" sem hann gerði fyrir Grindhouse-tilraunina sem mistókst gjörsamlega í Bandaríkjunum (þ.e. kvikmyndirnar Death Proof of Planet Terror sem Quentin Tarantino og Robert Rodriguez gerðu og voru sýndar sem "double-feature" en svo í sitthvoru lagi í Evrópu ... yes? ... no? ... whatever!)



Þetta er ekki trailer fyrir alvöru mynd, en þetta er mjöööög fyndið. Og það er mikið hrós frá mér varðandi Eli Roth, því ég er EKKI mikill aðdáandi hans!

Svo eru fleiri myndir af hinu og þessu nýlegu hérna!

Crazy-eyes Dion

Behold, the artist formerly known as Celine Dion ...



Mér finnst þessi mynd of fyndin!

Þegar mér leiðist

já þá má ykkur alveg leiðast líka. Þess vegna fáið þið þessa óskemmtilegu bloggfærslu.

Nú mun ég lýsa því sem ég hef verið að gera í dag:

1. Ég kláraði að skrifa "interlinear commentary" um 35. sonnetu Shakespeares. Aldrei heyrt um hana? Nei, hún er ekkert sérstaklega fræg. Ritgerðin fjallaði aðallega um andstæðurnar sem Shakespeare dregur upp í sonnetunni og allar földu kynferðislegu vísanirnar. Já, hann Shakespeare var mikill dóni.

2. Ég kláraði að skrifa samanburð um "The Description of Cookham" eftir Aemiliu Lanyer og "To Penhurst" eftir Ben Jonson - tvö ljóð sem skópu hina svokölluðu "herraseturs"-undirgrein enskra bókmennta. Sá samanburður var aðallega leiðinlegur.

3. Fór og talaði við fasistakennarann úr færslunni hér að neðan og spurði hann hvernig ég gæti breytt síðustu ritgerð þannig að ég fengi hærri einkunn fyrir hana. Hann útskýrði og ég fór glaður út. Ég hata hann ekkert sérstaklega lengur.

Og hvað á ég eftir að gera?

1. Skrifa eitthvað sem tengist bæði "The Lottery" eftir Shirley Jackson og ljóðum Allen Ginsberg. Veió!

2. Örugglega eitthvað meir, en ég nenni ekki að gera það.

Mér til óánægju fór ég í bíó í gær að sjá 30 Days of Night. Það var frekar léleg mynd og ég mæli eindregið ekki með henni. Annars hef ég ekkert skemmtilegt að segja í bili.

Jú! Ég man! Ég fann gamla Nylon vídjóið "Lög unga fólksins" á netinu. Fyrsta smáskífan þeirra. Muniði eftir öllu fjaðrafokinu í kringum Nylon sumarið 2004? Ó, good old days! Mjög gaman að horfa á þetta vídjó þó svo upprunalega útgáfan með Unun hafi verið miklu, miklu betri!


Af ritgerðum ...

Ég er ekki alveg hættur að fylgjast með Íslandi. Ég skoða t.d. blogg þeirra sem voru með mér í bókmenntafræðinni og sé að núna er ritgerðatörn hjá þeim.

Þeim til stuðnings langar mig til að lýsa því yfir að ég væri miklu frekar til í að vera að skrifa ritgerðir á Íslandi en hérna í Bandaríkjunum, sérstaklega í kúrsinum American Literature from 1860. Maðurinn sem kennir þann kúrs er fasisti, ég sver það. Ég þoli hann ekki. Ég hef skilað inn tveimur ritgerðum til hans og fengið eina lala-einkunn og eina frekar góða einkunn en alls engin uppbyggileg komment. Við eigum að endurskrifa þessar ritgerðir, en hvernig á ég að vita hvað ég á að endurskrifa þegar ég veit ekki hvað er að?!

En ég er búinn að hefna mín. Ég var að skila inn ritgerð til hans sem er svo fræðileg að hún er óskiljanleg. Gott á hann fyrir að gagnrýna mig og mína ritsnilld!

Annars er það af mér að frétta að klukkan er hálf-níu á laugardagskvöldi og ég veit ekki ennþá hvað ég á að gera! Einhverjar uppástungur?


Smá meira með Tori ...

Já, ég er kominn með smá Tori æði aftur ...

Nokkrar merkilegar klippur

Josephine

Þetta er lagið sem ég ætlaði að spila í útvarpinu í sumar, en svo spilaði ég Riot Poof í staðinn ...

Riot Poof



Ooooog smá svona fyndið. Molly Shannon að leika Tori Amos í Saturday Night Live

Kosher All These Years


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband