"Í hverju á ég að vera?" #4 - The Final Nightmare

Þá er komið að síðasta, en alls ekki sísta, pistlinum ykkur til aðstoðar við búningaval fyrir hrekkjavökupartýið á laugardaginn.

 

Í raun voru skipulagðir tíu slíkir pistlar, en vegna útskriftar, kreppu og andlegs doða þá er búið að taka hápunkta næstu sjö pistla og koma í einn stóran lokapistil.

 

Þar sem "slasher"-myndir eru þemað í partýinu, þá er það borðliggjandi að einhverjir mæti sem stærstu slasher-íkonin, s.s. Freddy Krueger, Jason Voorhees, Michael Myers, Leðurfésið íslenska eða jafnvel Pinhead.

 

Hins vegar vita flestir hvernig þessar týpur líta út, svo við sleppum þeim í bili (jafnvel þótt það sé mjög, mjög mikill munur á því að mæta sem "This-is-God"-Freddy Krueger úr fyrstu myndinni eða sem norna-Krueger úr Freddy's Dead ...)

 

En hvað með hetjurnar? Í þessum seríum er mjög sjaldgæft að sama hetjan mæti til baka í framhaldið; annað hvort deyr hún ásamt öllum öðrum söguhetjunum, eða verður það vinsæl í kjölfar vinsælda myndarinnar að hún getur farið að leika í öðrum, "betri" myndum.

 

Þessar hetjur eru iðulega kvenkyns og mætti segja að þær sem standi hvað helst út úr - meðal annars vegna þess hversu oft þær mæta til leiks - séu Laurie Strode úr Halloween 1, 2, 7 og 8 og Nancy Thomson úr A Nightmare on Elm Street 1, 3 og 7 ... Þessar persónur eru talsvert frábrugðnar mynd frá mynd, svo hér merkilegt vídjó sem einhver sorgleg sál hefur búið til og sýnir okkur bestu móment þessara kvenna í öllum myndunum sem þær birtast í! Tilvalið fyrir ykkur til að sjá hvaða Laurie og hvaða Nancy hentar ykkur best!

 

 

 

Það er þó mun algengara að sögupersónur þessara mynda láti lífið á einhverjum tímapunkti, og yfirleitt á þann veg að hægt sé að gera fínan búning úr. Lifandi líkið Victor Pascow úr Pet Sematary er ágætt dæmi ...

 

 

Það getur kannski verið erfitt að finna Hellraiserískan Cenóbít-búning, en ef þið hafið áhuga á slíku, þá verða Cenóbítarnir til svona ...

 

 

Mín versta martröð er að vakna einn daginn eins og Gregor Samsa, en einhverjum snillingi hefur fundist það góð hugmynd að kvikmynda svoleiðis aðstæður. Aumingja stelpan sem lék í þessari senu :( Nei í alvöru, þetta er viðbjóðslegt ...

 

 

Og fyrst við erum farin inn á svæði dýranna ... Fyrir þá sem vilja vera aðeins meira dóminant en fórnarlömbin hér fyrir ofan, þá er hægt að benda á það að hrollvekjugreinin hefur verið mjög dugleg við að taka upp hanskan fyrir dýrum. Fólk breytist í dýr, verður fyrir árásum dýra (oft þeirra dýra sem áður voru fólk) og mikið er kjamsað á öllu innan rammans. Gæti verið flókið að setja saman svoleiðis búning. Eða þið gætuð líka bara mætt nakin og með fullt af bótoxi í framan, eins og Nastassja Kinski í Cat People ...

 

 

Sama gildir um karlpeninginn, en í stað bótoxins þarf að fá sér hárígræðslu og denslags.

 

 

Þeir sem vilja hins vegar gera útaf við mig, þá má benda á eina viðbjóðslegust mynd í heimi: The Fly. Þeir sem mæta sem Seth Brundle / Brundlefly á lokastigi fá ekki að koma inn. Það er eitthvað virkilega, virkilega ógeðfellt við samruna manns og skordýra. Ughhhh.

 

 

Það væri svo sem hægt að benda ykkur á margt annað. Ég hef t.d. ekkert talað um allar þær margvíslegu birtingarmyndir vampíra sem hafa komið okkur fyrir sjónir í tíð og ótíð (en ef þið viljið vera kúl þá eiga stelpur að horfa á Daugthers of Darkness og strákarnir geta valið á milli Near Dark, The Lost Boys eða bara Interview with the Vampire!). Ítölsk hátíska gengur berserksgang í giallo-myndum áttunda áratugarins og það ætti ekki að vera mjög erfitt að setja sig í spor uppvakninga á borð við þá sem birtast í Dead-myndum George Romeros, o.s.frv., o.s.frv.

 

Ég hef trú á ykkur, gott fólk, og veit að þið munið öll mæta í einhverju skemmtilegu! Hlakka til að sjá ykkur :D


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband