Fólk er fífl, pt. 1

Kæru lesendur,

einhvern tímann á lífsleiðinni hafið þið án efa hugsað með ykkur að fólk sé fífl, einhverra hluta vegna. Kannski ekki í svo mörgum orðum, kannski ekki á svona grófan hátt, en ég leyfi mér að fullyrða að inntak merkingarinnar hafi verið keimlíkt hjá all flestum.

Lesendur góðir, þið eruð ekki einir. Ég, einnig, hef hugsað á svipaðan hátt. Efnistök þessa pistils, sem og þeirra sem honum munu fylgja, eru tileinkuð þessum tilfellum þegar okkur finnst, einfaldlega, fólk vera fífl.

Við byrjum á kvikmyndasýningu í Laugarásbíói.

Myndin sem um ræðir er My Bloody Valentine 3D, endurgerð samnefndrar myndar (sans 3D) frá 1981. Sú er kanadísk, nokkuð óþekkt, og ekkert sérstaklega merkileg nema horft sé á hana óklippta.

 my bloody valentine 3d ver2

Svona er söguþræðinum lýst á imdb.com:

„Tom returns to his hometown on the tenth anniversary of the Valentine's night massacre that claimed the lives of 22 people. Instead of a homecoming, however, Tom finds himself suspected of committing the murders, and it seems like his old flame is the only one will believes he's innocent.“

Þetta á sér allt stað í nýtísklulegri þrívídd.

Nú, til að byrja með, hver sá sem fer á þessa mynd, þessa endurgerð, í þeim tilgangi að upplifa eitthvert kvikmyndakonfekt hlýtur að vera fífl. Ég meina, er einhver á okkar tímum, post-Scream og allt sem þeirri mynd fylgdi, sem horfir á unglingahryllingsmyndir og býst við því að þær séu góðar? Í alvörunni góðar? Ég meina, til er fólk eins og ég sem hefur lúmskt gaman af þessari tegund kvikmynda en af allt öðrum ástæðum en flest fólk sem leggur leið sína í kvikmyndahús.

Til þess að orða þetta einfaldar: maður fer ekki á mynd eins og My Bloody Valentine 3D til þess að sjá eitthvað gott. Maður fer vegna þess að mann langar til að sjá blóðsúthellingar í þrívídd. Punktur.

Víkjum þá aftur að umræddu kvikmyndahúsi á umræddri sýningu. Ímyndum okkur að við séum að horfa á þessa mynd, og að við höfum svona la-la gaman af henni því hún er alls ekki leiðinleg en heldur alls ekkert góð, og að allt í einu fari gaurarnir tveir sem sitja fyrir aftan mann að tala um hversu léleg myndin er.

Þetta í sjálfu sér er ekkert ófyrirgefanlegt, enda eru þeir bara að segja það sem allir eru að hugsa: myndin er léleg. En þeim nægir ekki að segja það upphátt, heldur verða þeir að ræða það líka af hverju myndin er léleg. Leikurinn, til dæmis, er þeim ekki að skapi og þeir minnast á það (nokkrum sinnum) að leikhópurinn þurfi ekki að halda í sér andanum þegar kemur að afhendingu Óskarsverðlaunanna í mánuðinum. Ha-ha.

Ég get alveg ímyndað mér þá fyrir aftan mig á nýju endurgerðinni á Friday the 13th, að ræða hversu léleg nýja myndin er miðað við yfirburðar kvikmyndalistina sem bar fyrir augu í þeirri upprunalegu

EPIC FAIL.

Þér finna sig einnig knúna til að ýkja hlátur í hvert skipti sem eitthvað „hallærislegt“ gerist (hallærislegt í merkingunni eitthvað sem gerist vanalega í hryllingsmyndum; fólk sem deyr á sóðalegan hátt; fólk sem tekur vitlausar ákvarðanir; o.s.frv., o.s.frv.) Eftir mjög stuttan tíma er þetta orðið óþolandi og þá verður manni kannski spurn:

Hvort er hlægilegra: a) spaugilega léleg unglingahryllingsmynd eða, b) gaurarnir tveir sem borguðu sig inn á sömu mynd (sem heitir My Bloody Valentine 3D) og borguðu ekki bara almennt gjald heldur heilar 1200 kr. fyrir afnot af þrívíddargleraugum og sitja svo og telja sig gera gáfulegt grín að myndinni með því að kommenta á það sem fram fer á meðan kvikmyndagerðarmennirnir græða milljónir dollara (a.m.k. 50 milljónir enn sem komið er) á viðskiptum m.a. þeirra? Ég minni á að myndin sem þeir borguðu sig inn á heitir My Bloody Valentine 3D.

Vísbending: SVARIÐ ER EKKI VALMÖGULEIKI A).

Um myndina sjálfa er hægt að segja það að hún er ekki jafn góð og upprunalega kanadíska myndin, sem var sjálf ekkert sérstaklega góð hvort eð er. Þrívíddartæknin, hins vegar, er merkileg og kemur á óvart. Manni finnst maður vera að horfa á, ja, veruleikann en ekki flatt tjald. Það tók þó langan tíma að venjast gleraugunum og ég er ekki einu sinni viss um að mér hafi tekist að venjast þeim fullkomlega. Tæknin er sannarlega flott en það á enn eftir að laga hitt og þetta.

Ef það er satt sem ég heyri, að þar sem tæknin er fullkomnust þá þurfi maður engin gleraugu heldur sjá vel staðsettir myndvarpar um að skapa þrívíddina beint fyrir augum manns, þá hlakka ég til að sjá slíka tækni hér á landi!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég gæti ekki verið meira sammála þér Erlingur. Ég heiti Samúel Kristmundsson og er áhugamaður um kvikmyndir.

kv. Samúel Kristmundsson.

Samúel Kristmundsson (IP-tala skráð) 14.2.2009 kl. 15:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband