Bloggfærslur mánaðarins, september 2009
Að vera háður Craigslist ...
30.9.2009 | 20:38
... er hættulegt.
Fyrir þá sem þekkja ekki Craiglist, þá er það heimasíða þar sem hægt er að auglýsa hvað sem er til sölu. Húsgögn, sjónvörp, íbúðir, sig sjálfan, o.s.frv.
Ég hef vitað af þessari síðu lengi, en fór ekki að skoða hana fyrr en núna í dag. Og ég hreinlega get ekki hætt. Það er bókstaflega allt auglýst hérna. Mjög áhugavert. Sérstaklega gaman að sjá fólk reyna að selja gömlu túbusjónvörpin sín undir formerkjunum BRAND NEW 1080p HD TV, þó svo myndin sýni allt annan hlut. Fyrir flesta eru þessar 1080p/i HD, HDMI, etc., etc. lýsingar kannski óskiljanlegar, hvort eð er.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Læri læri, lær lær.
30.9.2009 | 04:45
Maður veit að maður er kominn til New York þegar maður er á leiðinni heim rúmlega tíu um kvöld og gengur framhjá grönnum, gömlum svörtum manni með sólgleraugu sem heldur á Biblíu uppi við eyrað og kallar Hallelúja! og I love you! hástöfum til vegfaranda.
Annars vissi ég alveg að ég væri í New York, sko.
Núna er maður fyrst farinn að finna fyrir álaginu í skólanum. Það er ekki nóg að skila bara inn verkefnum og þannig, heldur verða verkefnin að vera skapandi líka. Sem er frábært og einmitt það sem ég vildi, en það er stundum erfitt að setja sig í skapandi-gírinn þar sem maður þarf að búa eitthvað til sisvona.
En hins vegar er líka eitthvað til í því að um leið og maður setur sig í þann gírinn, þá fara alls kyns hugmyndir láta á sér kræla. í þessari viku tek ég upp fyrstu leikstjórnaræfinguna mína, skila inn fyrsta alvöru uppkastinu að handriti sem ég mun mögulega nota í lokaverkefni annarinnar, og þarf líka að halda áfram að þróa handrit í fullri lengd ... nema hvað að ég veit ekki hvaða mynd það verður, endilega, þar sem ég skilaði af mér þremur hugmyndum og svo velja prófessorarnir þá hugmynd sem þeim finnst að ég ætti að eyða mestum tíma í.
Þá er ekki með talin sena sem ég þarf að læra utan að og flytja (!!) eftir viku (úr Shape of Things eftir Neil LaBute .. sem er ansi mögnuð mynd, ef þið hafið ekki séð hana!). Þetta hljómar kannski eins og ég sé að kvarta, en það er alls ekki málið. Mér finnst þetta æðislegt. Hef bara ekki um mikið annað að skrifa eins og er út af öllu þessu! :)
Svo er aldrei að vita nema að ég standi svo við það sem ég lofaði - þ.e. að skrifa meira og oftar! Og birta kannski líka myndir! Myndavélin mín hefur verið algjörlega óhreyfð síðan ég kom út. Ekki vegna þess að mig langar ekki að taka myndir, heldur vegna þess að ég gleymi henni alltaf. Og líka vegna þess að ég veit að ef ég tek myndir, þá á tölvan mín eftir að hálf-deyja við það að færa þær inn. Ég elska tölvuna mína, en hún er nú orðin soldið gömul, greyið :(
Skólarapp
14.9.2009 | 16:37
Það er aðeins erfiðara að byrja aftur í skóla en ég hélt. Aðallega erfitt að skipuleggja sig ... sérstaklega í þessari viku sem er að byrja.
Núna er í gangi svolítið sem kallast crit-week, sem þýðir að við þurfum ekki að mæta í tíma (bara fyrirlestra) en í staðinn þurfum við að mæta í myndavéla-og hljóð workshops og svo fylgjast með annars-árs nemum sýna verkefnin sem þeir unnu að í sumar. Þessi verkefni eru kölluð 8-12 myndir, því þau eiga að vera 8-12 mínútna löng, og sýningarnar eru þannig að þrír prófessorar og svo hópur af fyrsta árs nemum horfir á myndirnar í skólastofu, og síðan taka prófessorarnir sig til við að gagnrýna myndirnar í tætlur.
Þetta er víst mjög taugatrekkjandi fyrir þá sem eiga myndirnar, en mjög skemmtilegt fyrir hina. Okkur var einnig sagt að við myndum hlæja að þessu núna í ár en gráta á næsta ári þegar við sýnum okkar myndir ...
Þar sem þessar sýningar og svo worksjoppin eru á mismunandi tímum, þá þurfum við að skrá okkur í tímana og þurfum að passa upp á að tímarnir stangist ekki á. Sem mér þykir ótrúlega flókið í augnablikinu .. og ég er svolítið stressaður að ég sé búinn að tví-, ef ekki þríbóka mig í vikunni.
En þetta reeeeeddast, eins og við Íslendingar segjum.
Ég er líka byrjaður að gera tilraunir við eldamennsku hérna úti. Eldaði minn rómaða (lesist: ekki rómaða) núðlurétt í fyrradag og hann heppnaðist bara ágætlega. Svo gerði ég tortillur í gær, sem heppnuðust líka vel. Tortillurnar mínar og núðlurétturinn eiga það sameiginlegt að innihalda nákvæmlega sama hráefnið nema að það eru tortillur og salsasósa í þeim fyrri og núðlur og stir-fry sósa í þeim seinni. Svona er ég tilraunagjarn.
Talandi um að elda mat, þá ætla ég að lýsa kostum og ókostum þess að versla hérna í New York.
Kostir:
* Kjúklingur er ógeðslega ódýr.
Ókostir:
* Allt annað er ÓGEÐSLEGA dýrt.
Þar hafiði það.
Ég lofa að birta myndir bráðum! Tölvan mín er bara orðin svo yfirgengilega hægfara að ég þori ekki að tengja myndavélina mína við hana af hræðslu við að hún fari yfirum ... Ég ætla hins vegar að birta mynd af skemmtilegri mynd sem ég sá um daginn, Orphan. Mjöööög skemmtileg. Smá rusl, og alls ekki lógísk, en flott, skemmtileg og spennandi! Mæli með henni fyrir þá sem vilja heiladauða skemmtun.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 16:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
... eitt enn, um Inglorious Basterds eftir Tarantino ...
9.9.2009 | 03:42
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Nýr skóli, nýtt heimili, nýtt land. Nei, kannski ekki alveg ...
9.9.2009 | 03:37
Í dag byrjaði ég formlega í námi við Columbia háskóla í New York eftir viku af intensífu orientation prógrammi (takiði eftir hvað sletturnar eru orðnar áberandi? eftir bara rúma viku!) og get ekki annað sagt en að dagurinn hafi verið góður, bara kannski svolítið langur.
Þriðjudagarnir eru þó verstir, enda er ég í tímum alveg frá tvö til tíu með einu klukkutíma hléi (og tveimur styttri pásum) á milli. Þetta hefst, þetta hefst.
Í fyrri tímanum - directing actors - tók ég mig til og gerðist aðstoðarmaður kennarans, svo ég er strax byrjaður að sleikja liðið upp í von um að fá einhvern hluta námsgjaldanna niðurfelldan á næsta ári (sjöníuþrettán).
Annars er meirihlutinn af fólkinu sem er í mínum árgangi frábært (m.a. ein leikkona sem hefur leikið í Buffy, Cold Case og CSI (reyndar New York, en amk ekki Miami) og er líka stjarna í sitcominu My Boys (já nei, ég hafði heldur aldrei heyrt um þann þátt ...). Við erum í heildina 67 og ég hef ekki enn náð að tala við alla, en þau virðast öll mjög spennandi og það verður frábært að fá að vinna með þeim í framtíðinni.
Fyrir utan það að vera byrjaður í skólanum er ég enn að reyna að koma mér fyrir. Dagsferð til Ikea hjálpaði mikið, en samt vantar hitt og þetta en flest það getur beðið.
Núna þarf ég að lesa smá fyrir næsta tíma í fyrramálið þannig að ég kveð í bili en reyni að skrifa meira á næstunni! New York er bara svo tímafrek borg :p
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)