Færsluflokkur: Bækur

Fevre Dream eftir George R. R. Martin

n900 

Eitt af áramótaheitunum mínum var að klára að lesa allar bækurnar í bókahillunni minni sem ég hef ekki ennþá lesið. Sem er yfirgnæfandi meirihluti þarsettra bóka.

Ég hef engar afsakanir fyrir þessari lesleti, en hef þó verið að taka mig á. Síðan í september, þ.e. eftir að ég kláraði BA-ritgerðina og byrjaði að vinna fyrir sinfó, hef ég lesið ca. eina bók á tveimur vikum. Þetta er ekkert sérstaklega merkilegt í sjálfu sér, en ég les meira og minna bara í vinnunni svo þetta eru bara nokkrar síður á dag sem ég kemst yfir. 

Svo er ég líka duglegur við að velja mér endalausar bækur eftir höfunda með skrifræpu, eins og Stephen King eða Clive Barker, og þær ná oftar en ekki að verða lengri en 800 blaðsíður stykkið.

Nú í gær var ég að klára bókina Fevre Dream eftir George R. R. Martin, sem er líklegast þekktastur í dag fyrir fantasíubækurnar sínar. Fevre Dream var víst fyrsta „yfirnáttúrulega“ skáldsagan hans, en hún er svona gamaldags vampírusaga með nokkrum ágætum útúrsnúningum sem ég ætla ekkert að fara nánar út í hér.

Fyrir þá sem hafa gaman af sögum um vampírur í suðurríkjunum (þ.e. The Interview with the Vampire og ... hennar óteljandi framhöld), þá ætti Fevre Dream að koma vel á óvart. Fyrir þá sem hafa gaman af bókum yfirleitt, þá ætti Fevre Dream jafnframt að halda fólki við lesturinn langt fram á nótt. Þetta er nefnilega ansi góð bók!

Hún er löng og hæg en uppbyggingin er ansi mögnuð og persónurnar eru skemmtileg blanda af „týpískum“ vampírusögupersónum og svo öðrum aðeins óvenjulegri. Söguþráðurinn er sömuleiðis þægilega kunnuglegur en þó fullur af óvæntum atburðum sem krydda upp á lesninguna. 

Þetta er fyrsta George R. R. Martin bókin sem ég les og ég var mjög ánægður enda karlinn flinkur penni. Ég veit ekki hvort ég eigi eftir að leggja í fantasíuseríurnar hans - ég þarf ekki beinlínis að bæta bókum við mig - en þær verða örugglega þess virði þegar þar að kemur.  

Svo er ég núna byrjaður á The Dead Zone eftir Stephen King. Hún er hæfilega löng. Eitthvað í kringum 400 blaðsíðurnar. Ætti að vera búinn með hana um helgina. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband