Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Hugleiðingar á laugardagsmorgni

Eftir að hafa heimsótt bar-klúbbinn Drink í gær hef ég komist að eftirfarandi óhrekjanlegum staðreyndum:

* Allir barþjónar í Bandaríkjunum hafa horft á Cocktail oftar en einu sinni og eru með alla klúbb-barþjóna-taktana á hreinu. Þessir taktar fela m.a. í sér að hella í glös á meðan þeir kasta öðrum glösum upp í loftið og ná að grípa þau um leið og fyrra glasið er fullt; að vera dónalegir á skemmtilegan hátt hvor við annan og við gesti staðarins; að þeir eru óeðlilega fljótir að afgreiða pantanir, stórar sem litlar; að þeir eru með tippsið sitt oft límt við ennið á sér.

Ég held að ekkert af þessu eigi við um íslenska barþjóna.

* Ameríkanar eru mjög hrifnir af rapp-hip-hop-urban-r&b "danstónlist" sem er samt varla danstónlist heldur frekar leiðinleg takttónlist. Sumir staðir spila bara þessa tónlist. Aðrir staðir spila 70% þessa tónlist og 30% aðra tónlist, sem er stundum betri en stundum verri. Drink er einn af seinni stöðunum.

* Það er til mjög mikið af amerískum lögum sem allir innfæddir þekkja en við á Íslandi höfum aldrei heyrt, þrátt fyrir að vera gegnsýrð af amerískri tónlist. Þar á meðal eru lög eins og Crazy Bitch og Save a Horse, Ride a Cowboy, sem var tileinkað kvenfólkinu á staðnum, gestum til mikillar gleði.

* Amerískar stelpur eiga það til að reyna að dansa eins og dansarar í grófustu rappvídjóunum, þrátt fyrir það að eiga sjálfar engan möguleika á því að komast í slíkt vídjó.

* Amerískir klúbbar spila ekki evrópska tónlist sem þýðir að þeir spila ekki breska tónlist sem þýðir að ég á aldrei eftir að heyra Rachel Stevens öskra "I said never again - but here we are!" (þrátt fyrir að hafa heyrt hana í skóbúð í verslunarmiðstöðinni Har Mar Mall).

* Ameríkanar geta skemmt sér á reyklausum stöðum án þess að kvarta yfir ólykt sem er að mestu leyti ímynduð.

Áður en við fórum á Drink þá fór ég í fyrsta skiptið á hafnaboltaleik. Og þá meina ég alvöru hafnaboltaleik! Nánari lýsing + myndir í næstu færslu, eruði ekki spennt?!?!


Ýmislegt skemmtilegt

Jahá, það hefur ýmislegt gengið á síðustu daga!

Ég fór í fyrsta ameríska partýið mitt, fór í fyrsta skiptið í skóla í ameríku, sá í annað skiptið á ævinni háhýsi í návígi (já, er ég ekki sveitó?), sá rústir af brú sem hrundi og spilaði póker í fyrsta skiptið í "alvörunni" (þ.e. í fyrsta skiptið með fólki sem tók spilið alvarlega. Mjög alvarlega). Já og svo vann ég tvo keiluleiki í röð! Það, skal ég segja ykkur, kom mér afskaplega mikið á óvart.

Partýið: Þetta var eiginlega tvöfalt afmælispartý hjá Joe vini mínum frá Sviss og vinkonu hans, Katie. Sem betur fer var ég búinn að hitta Katie og nokkra aðra vini hans Joe áður, svo mér leið ekki algjörlega utanvelta. Mér tókst meira að segja að læða inn einu "Push the Button" og einu "Something Kinda Ooooh", gestum til gífurlegrar hrifningar.

Skólinn: Er merkilegur. Í fyrsta lagi eru kennararnir gífurlega metnaðarfullir og himinhá skólagjöldin fara greinilega ekki til spillis. Hins vegar er ég bara með tvo kennara sem kenna mér tímana fjóra sem ég fer í. Annar þeirra er kurteis, settlegur svartur maður sem klæðist fínum skóm og rúllukragapeysum. Hann talar svo lágt að það er næstum því ómögulegt að hlusta á hann, sem er alls ekki gott. Ég held reyndar að ég sé ekki einn um það að skilja ekki orð af því sem hann segir því alltaf þegar hann biður okkur um að glósa þá líta nemendurnir upp ráðvilltir og leita svara í andlitum jafnráðvilltra samnemenda sinna.

Hinn kennarinn er ung, grimm pólsk lesbía sem á von á barni með kærustunni sinni. Þ.e. kærastan á von á barni. Það verður jólabarn. Þetta fengum við að vita strax í fyrsta tímanum. Hún virðist líka vera einn af vinsælustu kennurum skólans, enda eru tímarnir hennar þéttsettnir og fólk fylgir henni greinilega eftir. Hins vegar er ég smá hræddur við hana. Ég var að enda við að lesa yfir námslýsinguna á einu námskeiðinu og ég er einfaldlega hræddur. Ég veit ekki alveg til hvers hún ætlast af okkur ...

Ég er þess vegna farinn að íhuga alvarlega að skipta út tveimur kúrsum. Ég held að ein Grimmhildur og einn Bangsímon séu alveg nóg af hinu (Disney) góða fyrir mig. Er ekki líka skemmtilegra að hafa aðeins fjölbreyttara úrval? Júúúú, ég held það. Skipti um tíma á morgun! Nýju tímarnir verða: Creative Writing (úje) og African American Literature, sem hljómar mjög spennandi.

Háhýsi/borgir: St. Paul er mjög leiðinleg borg. Minneapolis er mjög skemmtileg borg. Fact.



Póker: Ég veit ekki hvort ég á að skrifa nokkuð um pókerinn. Þarf að halda póker-feisinu, bannað að segja of mikið.

Það eru líka meðfylgjandi myndir (og myndir af öðrum hlutum) hérna til hliðar! Enjoy! :D

MOA

Ameríkanar hafa mikið gaman af því að skammstafa hluti. MOA er, augljóslega, Mall of America, þar sem ég var í sex klukkutíma í dag. Mikið gaman, mikið stuð. Ég er voooooða þreyttur.

Þetta er engin smásmíði, þessi verslunarmiðstöð, og fyrstu klukkutímarnir fóru í það að ganga hringinn í kringum hverja hæð og átta sig á því hvaða búðir voru til staðar. Síðan fóru næstu klukkutímar í það að finna búðirnar aftur, enda ekki mjög auðvelt þegar um er að ræða 400 verslanir á þremur stórum hæðum. Já, og svo er líka skemmtigarður í miðri byggingunni en við fórum því miður ekki þangað að þessu sinni (þó svo mig hafi langað til þess ...)

Já, það er allt stórt í Ameríku. Eins og til dæmis The State Fair sem ég var að tala um um daginn (og lofaði myndum af ...) Það var alveg mega-stór sýning og það tók okkur þrjá klukkutíma að ganga kringum allt svæðið. Vegna þess hversu ótrúlega stórt þetta svæði var þá tókst okkur því miður ekki að kíkja á suma stærri sýningarbásana og misstum þess vegna af miklu, eins og t.d. stærsta svíni landsins og þvíumlíku. Það hefði nú verið ágætis mynd, ha?

Verst fannst mér þó að finna ekki hana Princess Kay of the Milky Way, hverrar andlit skorið í smjör var. Ég held reyndar að það sé ekki ennþá búið að krýna hana, annars hefði ég örugglega fundið hana. Ég fann því í staðinn Smjörprinsessuna frá því í fyrra, hana Audrey Mohr.



Og svona lítur hún út í alvörunni.



Ótrúleg list hér á ferð.

Annars eru komnar upp myndir á facebook síðunni minni! Ég held að fólk geti skoðað myndirnar án þess að vera meðlimir facebook, en kommentið bara og látið mig vita ef svo er ekki og þá birti ég þær hér í staðinn! :)

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband