Burton Returns

Ótrúlegt en satt, þá er bara tvær og hálf vika eftir af skólanum. Eftir það þá þarf ég að klára lokaverkefnið mitt - 3-5 mínútna langa stuttmynd fyrir „Directing“-tímann minn, og svo er ég bara floginn heim!

Það verður fínt að koma heim og hitta allt fólkið þar. Þó maður sé orðinn sjóaður í svona löngum námsferðum til útlanda, þá er samt alltaf spennandi að fara heim til Íslands um jólin og á sumrin. Líka, þegar ég vaknaði í morgun þá gat ég ekki hægt að hugsa um Góu Hraun, svo það verðu fínt að endurnýja kynni mín við íslenskt nammi. Amerískt nammi er ógeðslegt.

Þessi helgi er líklegast sú fyrsta rólega síðan ég kom hingað út. Mér tókst að klára meira og minna öll heimaverkefni fyrir Thanksgiving fríið í næstu viku, og hafði tíma til að heimsækja MoMA (Museum of Modern Art) í fyrsta skiptið í gær. Þar er verið að opna sýningu tileinkaða Tim Burton. Búið að hæpa þetta mikið upp hérna, og mjög spennandi að sjá hvernig þetta allt lítur út.

Sýning sjálf opnar ekki fyrr en í dag en hún stendur yfir til 26. apríl, svo það er nægur tími til að kíkja (svo fæ ég líka frítt inn því ég er nemi í Columbia, veió). Tilgangur ferðarinnar í gær var að fara í bíó - allar myndirnar hans Burton verða sýndar í stórum bíósal næsta hálfa árið. Í gær fór ég að sjá Edward Scissorhands og Batman Returns. Ég hef séð þær báðar margoft, en það var ótrúlega skemmtilegt að horfa á þær með troðfullum sal (týpu-hlutfallið var samt furðulegt: 50% „venjulegt“ fólk, 25% emo/mainstream-goth/post-Burton-Twilight-kids, 25% ellilífeyrisþegar). Sérstaklega Batman Returns - Christopher Walken vakti sérstaklega mikla kátínu áhorfenda og myndin er uppfull af frábærum línum sem virka best í svona fullum sal.

Batman Returns er semsagt aftur orðin uppáhalds Batman myndin mín. Hún tekur sig það mátulega alvarlega að Christopher Nolan myndirnar virka hálf tilgerðarlegar í samanburði. Og Nolan myndirnar eru ekki með tónlist eftir Danny Elfman, heldur. Og Michael Keaton er svona tuttugusinnum svalari Batman en Christian Bale. Val Kilmer er svalari en Christian Bale.

Batman Returns er líka með langflottustu markaðsherferð allra Batman-myndanna.

batman returns ver1 

batman returns ver2 

batman returns 1 

 

Öll 8 plakötin má finna hér.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

vá hvað ég ætla að horfa á batman returns í jólafríinu!!!

það verður svo gaman að fá þig heim! ég skal sjá til þess að það verði til nóg af góu hrauni :D

Steinunn Erla (IP-tala skráð) 23.11.2009 kl. 07:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband