Færsluflokkur: Merkilegir atburðir

Burton Returns

Ótrúlegt en satt, þá er bara tvær og hálf vika eftir af skólanum. Eftir það þá þarf ég að klára lokaverkefnið mitt - 3-5 mínútna langa stuttmynd fyrir „Directing“-tímann minn, og svo er ég bara floginn heim!

Það verður fínt að koma heim og hitta allt fólkið þar. Þó maður sé orðinn sjóaður í svona löngum námsferðum til útlanda, þá er samt alltaf spennandi að fara heim til Íslands um jólin og á sumrin. Líka, þegar ég vaknaði í morgun þá gat ég ekki hægt að hugsa um Góu Hraun, svo það verðu fínt að endurnýja kynni mín við íslenskt nammi. Amerískt nammi er ógeðslegt.

Þessi helgi er líklegast sú fyrsta rólega síðan ég kom hingað út. Mér tókst að klára meira og minna öll heimaverkefni fyrir Thanksgiving fríið í næstu viku, og hafði tíma til að heimsækja MoMA (Museum of Modern Art) í fyrsta skiptið í gær. Þar er verið að opna sýningu tileinkaða Tim Burton. Búið að hæpa þetta mikið upp hérna, og mjög spennandi að sjá hvernig þetta allt lítur út.

Sýning sjálf opnar ekki fyrr en í dag en hún stendur yfir til 26. apríl, svo það er nægur tími til að kíkja (svo fæ ég líka frítt inn því ég er nemi í Columbia, veió). Tilgangur ferðarinnar í gær var að fara í bíó - allar myndirnar hans Burton verða sýndar í stórum bíósal næsta hálfa árið. Í gær fór ég að sjá Edward Scissorhands og Batman Returns. Ég hef séð þær báðar margoft, en það var ótrúlega skemmtilegt að horfa á þær með troðfullum sal (týpu-hlutfallið var samt furðulegt: 50% „venjulegt“ fólk, 25% emo/mainstream-goth/post-Burton-Twilight-kids, 25% ellilífeyrisþegar). Sérstaklega Batman Returns - Christopher Walken vakti sérstaklega mikla kátínu áhorfenda og myndin er uppfull af frábærum línum sem virka best í svona fullum sal.

Batman Returns er semsagt aftur orðin uppáhalds Batman myndin mín. Hún tekur sig það mátulega alvarlega að Christopher Nolan myndirnar virka hálf tilgerðarlegar í samanburði. Og Nolan myndirnar eru ekki með tónlist eftir Danny Elfman, heldur. Og Michael Keaton er svona tuttugusinnum svalari Batman en Christian Bale. Val Kilmer er svalari en Christian Bale.

Batman Returns er líka með langflottustu markaðsherferð allra Batman-myndanna.

batman returns ver1 

batman returns ver2 

batman returns 1 

 

Öll 8 plakötin má finna hér.  


Betra seint en aldrei!

Jæja, hérna koma þá fyrstu myndirnar.

Eins og sést, þá tókst mér ekki að ná myndir af öllu á listanum, en hafið engar áhyggjur - þetta er svona verkefni „in progress“ og ég mun halda áfram þar til öllum myndum hefur verið náð.

Annars er það af mér að frétta að í dag lék ég í fyrsta skipti á „sviði“ fyrir framan Directing Actors bekkinn minn. Ég og Pei-Ju vinkona mín tókum 13 blaðsíðna langa senu úr leikritinu/kvikmyndinni The Shape of Things eftir Neil LaBute, og tókst ágætlega vel til. Ég var ekkert smá stressaður áður en við byrjuðum, enda hef ég ekki leikið á sviði síðan í, hvað, 1. bekk í grunnskóla, þegar ég var sögumaður í Þyrnirósu?

(Jú, ók .. svo komu meistaraverkin um Afa gamla, þar sem Atli Freyr lék afgreiðslukonu í rauðri dragt ... og já, líka Páls-Óskars-Eurovision-senan ógleymanlega ... og svo kannski líka dimmisjón „atriðin“ við útskriftina í MH ... tvisvar sinnum!)

Hvað um það. Þegar leiknum var lokið, þá komst ég að því að þetta var ekki jafn hryllilegt og ég hafði búist við. Jú, þetta var frekar scary á köflum og ég var mjög hræddur um að gleyma línunum mínum (þetta voru 13 - ÞRETTÁN! - blaðsíður) en ég var greinilega búinn að undirbúa mig vel, svo það var ekkert vandamál. Ég held samt að ég reyni að halda mig sem mest fyrir aftan myndavélina ... held að það sé frekar „my thing“ ...

Tisho kemur svo í heimsókn núna á föstudaginn svo ég fæ fleiri tækifæri til þess að túristast aðeins. Sem er mjög fínt, því það er engin lygi að maður býr liggur við í skólanum. Við erum bókstaflega alltaf þar. Ein stofan - 511 - sem er svona stór bíósalur/fyrirlestrarsalur - er sérstaklega skelfileg staðsetning og ég held að flest okkar séu komin með ógeð á henni, enda eyðum við sirkabát 119212 klukkutímum á viku þar. (Samt flott stofa og fínn staður :P)

Þegar hann kemur þá fæ ég frekari afsökun til að fara út og taka fleiri myndir, svo búist við fleiri öppdeitum á næstunni! :) 


Þegar maður nennir ekki að blogga skrifar maður lista

Síðustu daga hef ég gert fátt annað en að horfa á óháðar hryllingsmyndir, fokdýrar Hollywood myndir, stundað atvinnuleit af miklum eldmóð og tapað í pöbb-quizzum.

Meðal hápunkta þessara daga:

* Atvinnuleitin tókst það vel að ég fékk vinnu! Veió!

* Tókst að tryggja mér tvö DJ gigg á næstu dögum (14. feb og 20. mars! MARK YOUR CALENDAR!) 

* Slumdog Millionaire er með betri myndum sem ég hef séð lengi.

* Valkyrie er með betri Tom Cruise myndum sem ég hef séð lengi (þetta er í sjálfu sér ekki mikið hrós, en hún var samt góð).

* Faye Dunaway er ÓTRÚLEG leikkona. Mommie Dearest er ógleymanleg mynd ... ji, ég veit ekki hvar ég á að byrja.

mommiedearest 

* Ég fékk nýja og góða hátalara á spottprís á útsölu hjá BT.

* Jamie Blanks, leikstjóri uppáhaldslélegumyndarinnar minnar (Valentine), fór aftur heim til Ástralíu eftir að Valentine floppaði stórt og gerði ódýra mynd sem heitir Storm Warning. Sú mynd er yndislega ógeðsleg og skemmtileg.

* Kláraði The Dead Zone (mjög mjög góð) og byrjaði að lesa Yosoy eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur (góð, enn sem komið er).

Meh-hlutar þessara daga:

* Sá óháðu myndina Donkey Punch (meh).

* Sá óháðu myndina Right at Your Door (meh, deilt með fimm, sinnum 0 = 0).  

* Fékk aftur æði fyrir Sugababes eftir nokkrar vikur af stanslausu Girls Aloud áreiti.

Nadir:

*  Sá fokdýru Hollywood myndina Confessions of a Teenage Drama Queen með LezLo Bihan í aðalhlutverki. Sjaldan hef ég séð jafn hryllilega mynd. Jesús, ég hélt ég myndi fá flog. Og ég FÍLA LezLo! Ég vona að SaMAN hafi áhrif á hana til hins betra ... 

lindsay lohan tenslip s 

* The Black Cherries TÖPUÐU (já TÖPUÐU) Pöbb-Quizzi Q-Bars eftir tveggja vikna óbrotna sigurgöngu. VIÐ MUNUM MÆTA TVÍEFLD Í NÆSTU VIKU, SJÁIÐ BARA TIL! 

 


Will Young og ég

Breska poppstjarnan Will Young (þ.e. fyrsta Idolstjarna heimsins) var staddur á Íslandi nú um helgina og fór (að sjálfsögðu) á Q-bar þar sem hann dansaði við óföngulegt fylgdarlið sitt. 

Sem betur fer var Valdi með augun opin og tók eftir manninum og benti mér á hann. Í dágóða stund veltum við því fyrir okkur hvort við ættum að segja eitthvað við stjörnuna, en hann virtist ekki vekja mikla athygli Q-bars gesta, og að lokum ákvað ég að slá til enda myndi ég sjá eftir öðru daginn eftir.

Svo urðum við líka að segja/gera eitthvað, því Gunni vinur okkar er var ástfanginn af Will Young en hafði ekki nennt með í bæinn sökum „svetts“ og þ.h. 

Ég gekk því upp að Will Young, spurði hvort hann væri ekki Will Young (jú, þetta var hann) og sagðist vera mikill aðdáandi (sem er ekki alveg satt, en hann á nú samt nokkur flott lög). Því næst spurði hann mig hvar allt fólkið væri (það var frekar tómt á Q-bar þessa stundina, og ég sagði honum bara að bíða, sem hann og gerði) og ég hrósaði honum fyrir að hafa minnst á Emilíönu Torrini í breska X-Factor fyrr í vetur og bað um að fá að taka í höndina á honum. Hann varð við þeirri beiðni. Svo fór ég að dansa. „Dansa“. 

Nokkrar staðreyndir um þessa upplifun:

* Will Young er talsvert minni „in person“ heldur en hann virðist vera í sjónvarpinu. Þetta á víst við um 90% fræga fólksins.

* Will Young er mjög kurteis.

Aðrar breskar en ekkert sérstaklega vel þekktar poppstjörnur sem hafa tekið upp myndband á Íslandi, sem ég hefði frekar verið til í að hitta á Q-bar heldur en Will Young:

* Sophie Ellis-Bextor

Aðrar breskar en ekkert sérstaklega vel þekktar poppstjörnur sem hafa EKKI tekið upp myndband í Íslandi (ennþá), sem ég hefði frekar verið til í að hitta HVAR SEM ER heldur en Will Young:

* Þessar skinkur. article 0 00C26F4E00000578 16 468x312 


Pub-Quiz og táragas

Gáfumannahópurinn The Black Cherry sigraði með miklum yfirburðum á Pub-Quizzi Q-bars núna um daginn. Tileinka ég sigurinn Tinu Turner og Ankara.

Í verðlaun voru þrír mögulegir vinningar: 1) stóri potturinn (þ.e. e-ð um 14.000 kr, fer hækkandi með hverri keppni sem enginn dregur hann), 2) Átta bjórar og 3) Hvítvínsflaska. Og kannski rauð líka.

Á þessum tímum óvissu og kreppu hefði verið yndislegt að vinna peningana og deila þeim niður á þrjá meðlimina. Kannski ekki mikill peningur, en samt eitthvað.

Hins vegar var heppnin ekki með okkur og við drógum bjórana átta. Sem, þegar við pælum í því, er ekki svo slæmt heldur. Einn okkar þriggja er bindindismaður sem gerir það að verkum að bjórarnir átta skiptast milli tveggja, þ.e. fjórir á mann. Og hver bjór kostar 800 kr., sem þýðir að í raun erum við að spara okkur 3200 kr. með þessum vinning. Og þar sem 14.000 deilt með þremur er aðeins lítið hærri upphæð en rúmar þrjúþúsund krónur, þá getum við bara prísað okkur sæla. Jahá og amen.

Eftir stórsigurinn var ferð okkar vina (ásamt Queen B og DJ Glim) heitið að Alþingishúsinu þar sem kominn var saman „skríll“ og „lýður“ sem kastaði e-um óþverra í átt að húsinu og lögreglumönnum sem brugðust ókvæða við og sprautuðu táragasi yfir hópinn. Við sluppum ósærð, öllsömul, en þetta var mikið sjónarspil og merkilegt að upplifa svona á okkar friðsæla fróni.

Ég er algjörlega team-löðregla og team-friðsæl mótmæli. Hitt liðið þarf aðeins að fara að róa sig, enda hljóta svona læti að enda í stórslysi innan skamms.  


Besta Girls Aloud smáskífa síðan ... nei, bíddu ...

Ég veit ekki af hverju, en B-hliðin á nýjustu smáskífu Girls Aloud, The Loving Kind, er svona tuttugu sinnum betri en lagið sem það á að fylgja. 

B-hliðin kallast Memory of You en hét víst einu sinni Japan, sem þýðir að lagið er fjarskyldur ættingi lagsins Singapore sem var líka stórgóð B-hlið stelpnanna knáu.

Þó svo það virðist ótrúlegt að einhver skuli vera svo tregur að setja ekki lag eins ótrúlega gott og Memory of You á sjálfa breiðskífuna, þá skil ég þessa ákvörðun að sumu leyti.

Í fyrsta lagi, þá hefði Memory of You smellpassað á Tangled Up plötuna sem var smá myrk og „edgy“ og voða stílíseruð. Hins vegar er nýja Out of Control platan rosalega „villt“ og „skemmtileg“ og „quirky“. Ég vona að lagið hafi verið samið eftir Tangled Up, því annars er búið að kasta á glæ besta laginu sem komst aldrei á þá plötu og skella því saman með ansi annarsflokks smáskífu sveitarinnar. Svoleiðis gerir maður ekki. 

Hins vegar eiga stelpurnar það til að gefa út frábærar B-hliðar öðru hverju. Androgynous Girls ... Hoxton Heroes ... Dog Without A Bone ... Kannski er þetta hluti af óumflýjanlegum og væntanlegum heimsyfirráðum Girls Aloud; áætlun sem við mannfólkið skiljum ekki enn en gegnir samt mikilvægum tilgangi í „stóru“ „myndinni“. (þ.e. THE BIG PICTURE). 

ps. Það skal tekið fram að þrátt fyrir að því er virðist neikvæða umfjöllun um aðalsmáskífuna, The Loving Kind, þá finnst mér það lag stórgott. Sérstkalega í smáskífuversjóninni. Og sérstaklega þegar horft er á myndbandið með. En það er langt, langt, langt frá því að vera eins gott og Memory of You, því miður.  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband