Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Hvað er að gerast?!

Ég er nýkominn heim frá Chicago, veðrið er yndislegt, ég er úthvíldur og ánægður og ætla að byrja daginn á því að fara í ræktina og búinn að setja saman skemmtilegan sumar-fjör-playlista til að stytta mér stundir, en ...

... íþróttafötin mín eru HORFIN!

Ég er búinn að leita alls staðar. Þau eru ekki í herberginu mínu. Þau eru ekki niðri í þvottahúsinu þar sem ég gæti mögulega hafa gleymt þeim (en ég held samt ekki). Ég get ekki ímyndað mér hvar annars staðar þau gætu verið. 

Ég sé fyrir mér þrjá möguleika: 1) Einhver stal þeim úr þurrkaranum síðast þegar ég þvoði þau, og svo tók ég ekki eftir að þau vantaði fyrr en núna í dag. 2) Herbergisfélaginn minn stal þeim til þess að pirra mig; við tölum eiginlega aldrei saman, svo hann veit að ég á ekki eftir að spyrja hann fyrr en allt annað hefur verið reynt. Þetta er kannski það sem honum finnst fyndið. 3) Íþróttafötin hafa einhvern veginn horfið yfir í aðra vídd inni í herberginu mínu. Þetta meikar sens því ég var að horfa á X-Files þátt um daginn þar sem fólk gat gert ýmislegt áhugavert í mismunandi víddum. Hvorki líf né dauði skipti máli, því það var alltaf hægt að fá "hinn" sig úr annarri vídd til þess að halda áfram lífinu í þessari ... Já, nei.

Hvað skal ég gera?!


Le pop

Mér finnst það svolítið pirrandi fyndið að svokallaðar "indie"-poppgrúppur (t.d. Sprengjuhöllin, Alphabeat, Feist, The Ting Tings o.s.frv, o.s.frv.) eru að fá hrós frá öllum í heiminum (og gagnrýnendum líka) á meðan "venjulegar"-poppgrúppur eru ennþá litnar hornauga.

Ekki það að ég sé á móti indie-popp hljómsveitum (ofangreindar sveitir eru mjög góðar), en er þetta ekki hrikaleg hræsni? Það er alveg ótrúlega hæfileikaríkt fólk sem er að framleiða frábæra popptónlist í dag, en það þykir ekki mjög svalt að hlusta á hana, því hún er svo "fjöldaframleidd". 

Ekki segja að þetta sé vegna þess að "þau semji ekki lögin sín sjálf". Feist varð fræg fyrir að covera lög. 

Þetta er samt nýja uppáhaldslagið mitt: The Ting Tings og That's Not My Name

Frábært!

(ps. þegar ég segi "ótrúlega hæfileikaríkt fólk", og "frábæra popptónlist", þá er ég í raun og veru að tala um Dragonette, þó svo ég hafi ekki sett link á þau ...)


Helgin

Ég er búinn að tæma bókasafnið hérna við Hamline háskóla. Herbergið mitt er nú fullt af fræðibókum um kvikmyndir, hryllingsmyndir, hryllingsbókmenntir o.þ.h. Þetta eru bækur sem ég er bæði að kíkja á fyrir væntanlega BA-ritgerð og sömuleiðis fyrir væntanlega aðra ritgerð sem ég er að skrifa núna, um Stephen King söguna The Mist og kvikmyndaaðlögunina sem var framleidd í fyrra (a.k.a. mest niðurdrepandi kvikmynd allra tíma ... á góðan hátt).

En hvað nenni ég að lesa mikið í þessum bókum yfir helgina?

Svar: Fullt. EKKI NEITT.

Nei, í staðinn ætla ég að skype-horfa á X-Files með Baldvin, finna tónlistarmyndbönd í góðum gæðum svo ég geti skrifað DVD disk með þeim, fá mér vín í kvöld með skemmtilegu fólk og horfa á Across the Universe, og gera eins lítið af heimavinnu og ég mögulega get. 

Hvað ætlið þið að gera? Smile


Það sem við þurfum að þola hérna úti ...

n667304842_493496_5503

Þessi mynd var ekki tekin í dag, heldur fyrir nákvæmlega viku síðan, eftir nokkra daga af góðu veðri. Svo ákvað einhver hálfviti þarna uppi að það þyrfti að snjóa aftur í Minnesota, því það er ekki eins og það hafi snjóað nóg síðasta hálfa árið. !!!!!!!!!!

Snjórinn á þessari mynd varði þó ekki lengur en ca. þrjá daga, því allt í einu hlýnaði umtalsvert, og um helgina var hægt að ganga um á stuttermabolum.

En einmitt núna í morgun, sem ég var að ganga frá kaffiteríunni og aftur upp í herbergi, fóru lítil snjókorn að dansa í kringum mig. 

Það er kominn apríl. Ef þetta endurtekur sig aftur, þá fer ég beint heim. 


Af hryllingsmyndum

Bara svo fólk hafi það á hreinu, þá hefur hryllingsmyndaáhugi minn ekkert dvínað á síðustu árum. Ef eitthvað er, þá hefur áhuginn aukist og er orðinn mun flóknari (og óáhugaverðari fyrir suma) en hann áður var.

Og þess vegna þarf það ekki að koma neinum á óvart að síðustu fjórar myndir sem ég hef séð hafa verið ansi hryllilegar. Og ég nenni ekki að fara að sofa, svo ég ætla að skrifa aðeins um þær.

Funny Games 2008 er endurgerð samnefndrar þýskrar myndar eftir Michael Haneke (sem gerði Caché og fékk fullt af verðlaunum fyrir) og er með Naomi Watts, Tim Roth og Michael Pitt í aðalhlutverkum. Myndin er ekki bara endurgerð, heldur skot-fyrir-skot endurgerð, sem er, að mínu mati, eitt það tilgangslausasta sem hægt er að framleiða. 

Eða svo hélt ég. Ég hef ekki hugmynd um af hverju Haneke vildi endurgera myndina sína á þennan hátt, en að mínu mati passar hún fullkomlega inn í það sem er að gerast í Hollywood þessa dagan. Það er hægt að sjá þessa mynd sem viðbragð og svar við myndum eins og Hostel eða Captivity (þ.e. myndum sem gagnrýnendur hér vestra vilja kalla "torture porn"). Þetta eru hryllingsmyndir sem hafa hægt og rólega fært áhersluna frá spennu og hryllingi yfir í bara hrylling, og mikið af honum. Fullt af opnum sárum og raunsæislegum förðunarbrellum o.þ.h. Sumir vilja halda því fram að þessi tegund mynda sé runnin undan rifjum pyntinganna sem voru stundaðar í Guantanamo Bay og annars staðar, en ég vil halda því fram að þetta séu smekklausar myndir gerðar af letingjum sem kunna ekki að gera betur.

Funny Games er svipuð að því leiti að það er mikið um pyntingar og óhugnað, nema hvað að allt er sett fram á mjög "fölskum" nótum; Haneke setur myndina upp eins og Brecht-leikrit þar sem illmennin standa fyrir utan "söguna" - eða öllu heldur, skapa söguna - á meðan fjölskyldan sem þeir halda í gíslingu eru hluti af raunveruleika sögunnar. Sumir leikarar tala beint við áhorfendur. Myndin er öll tekin upp þannig að við sjáum bara það sem Haneke vill að við sjáum, sem er oftar en ekki öfugt við það sem við erum vön að sjá. Myndavélin hreyfist sjaldan, og ef hún hreyfist þá er hreyfingin augljós og dregur athygli að sér, o.s.frv.

Pyntingarnar eru næstum því óáhorfanlegar. Þetta er pottþétt ekki mynd fyrir veikar sálir, en hún er afskaplega vel gerð. Og þó svo mér finnist Haneke stundum ganga einum of langt í "boðskapnum", þá er alveg þörf á kvikmynd sem fær áhorfendur til að spyrja sig hvað það er sem þeir vilja sjá - eða búast við að sjá - þegar þeir sjá hryllingsmyndir. Þetta er semsagt hryllingur fyrir hugsandi fólk. Haneke segir að þeir sem gangi út af myndinni hafi enga þörf fyrir hana, öfugt við þá sem sitja hana út í gegn. Hvað sem það þýðir.

Trailerinn fyrir myndina er áhugaverður. Næstum því jafn sjúkur og myndin sjálf, og gerir út á "svarta húmorinn" sem gengur í gegnum myndina. En ég skal segja ykkur það að myndin er lítið fyndin og mikið hryllileg.

Doomsday. Og uppáhaldsmyndin mín árið 2008 er ... DOOMSDAY! A.m.k. hingað til. Ég er ekki að djóka, þetta er skemmtilegasta mynd sem ég hef séð síðan ég sá Serenity fyrir nokkrum árum. Ekki það að Doomsday og Serenity séu líkar, þær eru bara yfirgengilega skemmtilegar.

Doomsday er klikkuð blanda af Mad Max, Aliens og 28 Days Later. Hún er gerð af Neil Marshall, sem gerði The Descent. Ef þið eruð ekki búin að sjá The Descent, aka bestu hryllingsmynd síðustu 30 ára, þá skuluð þið gera það strax. Svo skuluð þið sjá Doomsday, sem er yndislega yndisleg. 

Hérna er trailerinn fyrir Doomsday. Ekki alslæmur, en gefur ykkur enga hugmynd um það hversu brjáluð þessi mynd er!

 

The Ruins -Fyrsta bókin sem ég las þegar ég kom hingað út var The Ruins eftir Scott Smith. Fín bók, mjög óhugnaleg og hraðlesin. Mæli með henni fyrir þá sem fíla hryllingsbókmenntir.

Ekki hafði ég samt hugmynd um að það ætti að kvikmynda hana, sérstaklega ekki svona snemma. En svo sá ég þetta ...

... og varð strax spenntur. Ég efast um að trailerinn virki jafn vel á þá sem hafa ekki lesið bókina - þ.e. þá sem vita ekki um hvað sagan snýst - en ég lofa ykkur því að þetta er helvíti góð mynd. Spennandi, ógeðsleg, fyndin og einfaldlega skemmtileg. Vel leikin líka! En bókin er samt betri. Leiðinlegt að endinum hafi verið breytt ...

Síðast, og allra síst, er það myndin Satan's Playground eftir hinn hæfileikalausa Dante Tomaselli. Það er ekki oft sem maður sér gjörsamlega ömurlegar myndir, en Satan's Playground er án efa ein ömurlegasta mynd sem ég hef séð.

Hér er t.d. góð lína úr myndinni, þegar ein persónan lýsir skringilegu hljóði sem hún heyrði: "It's like a helicopter or something ... or a giant bird."

Því þyrlur og fuglar hljóma svo svipað.

Svo er alveg yndisleg persóna í þessari mynd sem er heyrnarlaus og mállaus, en getur samt heyrt í móður sinni kalla og öðrum persónum banka á glugga. Svo kann hún líka að raula barnavísur sem hún hefur aldrei getað heyrt, hvað þá endurtekið.

Ef þið getið komist í gegnum þennan síðasta trailer, þá þurfið þið ekki að horfa á alla myndina. Hann er næstum því jafn ömurlegur og myndin sjálf, nema bara fimm mínútur í staðinn fyrir níutíu (já, FIMM mínútur!).

 


Life imitates art

Í enskutíma hérna úti erum við að lesa Howards End eftir E.M. Forster og vorum að enda við að lesa ritgerð sem fjallar um það hvernig Forster notar setningar og málsgreinar til þess að "lauma að" litlum þversögnum sem virka eins og peð í þversagnakenndu, togstreitu-fylltu heildarverkinu.

Hugtakið "double turn" er t.d. eignað Forster, þar sem hann átti það til að skrifa setningar sem byrjuðu á einn veg en enduðu svo skyndilega á allt annan hátt. Þetta gerir það að verkum að lesandinn fer að efast um hitt og þetta í textanum, eins og t.d. gildismat persónanna (eða sögumannsins).

Ein stelpa í tímanum var spurð hvað henni fyndist um þessa ritgerð og hvort hún væri sammála Kenneth Graham, sem skrifaði hana. Hún svaraði eitthvað á þessa leið: "I feel that Graham persuasively argued the fact that Forster's double-turns do serve the purpose of adding contrast to the overall text, as well as drawing attention to several of the major, important themes, and stuff."

Haha. Hún sagði óviljandi bókmenntafræðibrandara.

Og enginn hlær, nema nördinn ég.

 


Ferðasagan - the whole damn thing!

Ég var búinn að lofa ferðasögu, og hér birtist hún - í máli og myndum!

 

Golden Gate brúin

 

Upprunalega átti þessi ferð að vera heljarinnar road-trip þvert yfir Ameríku. Ég ætlaði upprunalega í skóla í Kaliforníu, en grimm örlög urðu til þess að ég ég var sendur til Minnesota í staðinn (ok .. "grimm" örlög er svolítið langt gengið ... mér finnst Minnesota æði! Í alvöru!). Ég og Cecilie vinkona mín frá skiptinámsárunum í Sviss vorum búin að plana þessa ferð frá New York til Kaliforníu í marga mánuði áður en við þurftum að hætta við vegna þess að við áttum engan pening. Og svo þegar ég endaði í Minnesota, þá dó hugmyndin algjörlega út.

Nema hvað, að Maddie, önnur vinkona mín frá Sviss, skrifaði mér í Janúar og hálfpartinn skipaði mér að koma í heimsókn áður en ég færi frá Bandaríkjunum. Ég vissi að Cecilie langaði til Kaliforníu, þar sem Maddie bjó, svo ég spurði hana hvort hún væri laus um páskana. Hún var það og við enduðum á því að panta okkur flug til San Francisco - tíu daga páskafrísferð. Voða spennandi!

Ég lenti í San Francisco í kringum kl. 6 og var strax orðinn hálf-smeykur að hitta Maddie aftur. Ég meina, það voru heil fimm ár liðin síðan við hittumst síðast. Kannski yrði þetta allt saman vandræðalegt og stirt. Kannski var hún búin að breytast umtalsvert og orðin óþekkjanleg. Kannski kannski kannski. Ég hafði að minnsta kosti hitt Cecilie eftir Sviss-skiptiárið. Við höfðum farið til Ítalíu saman og hún hafði komið til Íslands í heimsókn, svo ég vissi að við gætum lifað í sátt og samlyndi.

Saman á ný - ég, Maddie og Cecilie

 Á meðan ég beið eftir ferðatöskunum mínum pikkaði einhver í öxlina á mér og þegar ég sneri mér við var eins og ég væri kominn aftur til Sviss. Maddie stóð fyrir aftan mig, sama manneskja og áður, kannski aðeins brúnni en venjulega, með bros á vör. Ég held að þá hafi ég áttað mig á því að þetta yrði frábær ferð.

Við biðum eftir Cecilie sem hafði verið að ferðast frá Spáni síðan um morguninn daginn áður (eitthvað um 30 klukkutíma, tótal) og þegar við vorum öll komin saman byrjuðum við á því að finna næsta opna bar sem seldi mat. Sem segir ykkur kannski eitthvað um hvernig restin af ferðinni var ...

San Francisco

Er mögnuð borg. Fyrir utan allar bröttu brekkurnar og ótrúlegt útsýnið yfir flóann, þá eru hverfin óendanlega skemmtilg. Maddie fór með okkur í Haight-Ashbury hverfið þar sem hipparnir héldu sig í den tíð og þar sem hið svokallaða "Summer of Love" átti sér mest megnis stað. Við kíktum á Castro, sem er gay-hverfið í San Francsico, fullt af klúbbum og börum.

Haight-Ashbury

Við áttum í mestum vandræðum með að finna einhvern stað til að fara inn á, en þegar við heyrðum Kiss með Prince koma blastandi út af nálægum bar (sem hét því skemmtilega nafni The Bar), þá var leitinni lokið. Æðislegur staður - lítill bar með frábærri tónlist allt kvöldið!

Þar á eftir kíktum við á annan stað með frumlegu nafni: The Café. Það var meira "alvöru" skemmtistaður, á mörgum hæðum, með strippdönsurum sem földu mest lítið, og sándtracki sem samanstóð af Britney Spears, Fergie Ferg og Timbaland. Good times. 

Við gengum Golden Gate brúnna daginn eftir (fram og til baka) og fengum vægt áfall við það hversu ótrúlega fallegt brúarsvæðið er, séð ofan frá.

 

Svo kíktum við náttúrulega í Chinatown, en stöldruðum stutt við þar. Ekki mikið að gera nema maður sé svangur og vilji fullt af ódýru drasli ... 

Chinatown

Santa Cruz

Eftir fína helgi í San Francisco keyrðum við strandlengjuna til Santa Cruz, þar sem Maddie býr. Keyrslan er rúmur einn og hálfur tími, en það er svo margt að sjá á leiðinni að maður finnur ekki fyrir því.

Santa Cruz er eins og lítil paradís á jörð. Pínulítill bær þar sem íbúarnir eru annað hvort gamlir hippar, gamlir klikkaðir hippar, eða háskólanemar. Maddie, sem er háskólanemi btw, býr í litlu húsi með systur sinni sem er algjörlega í miðju alheimsins sem er Santa Cruz. Tvær mínútur í burtu er lítil "einka"-strönd, Sunny Cove ...

 

Ég eignaðist meira að segja nýjan vin á þessari strönd ...

Seal!

... handan við götuna er litli veitingastaðurinn sem hún vinnur á (Aloha - Hawaii þema, u know). Ég og Cecilie eyddum dágóðum tíma þar á meðan hún var í vinnunni. Fengum góðan afslátt, og solls. Og svo rétt hjá eru fjölmörg lítil kaffihús þar sem hægt er að fá sér morgunmat ef maður er latur túristi.

Í Santa Cruz má einnig finna The Boardwalk sem fólk þekkir kannski betur úr laginu Under the Boardwalk með The Drifters, en það skemmtigarður með einum elsta rússíbana Bandaríkjana. Ég og Cecilie fórum náttúrulega í hann og skemmtum okkur konunglega. Gamlir rússíbanar þurfa ekki endilega að vera lélegir og þessi, gerður úr tré og alles svo hann virtist helmingi hættulegri, var frábær.

Boardwalk

Hátt uppi í fjöllunum sem standa kringum Santa Cruz er Bonny Doon víngerðin sem framleiðir eitt af frægustu vínum Kaliforníu. Við gátum að sjálfsögðu ekki farið úr ríkinu án þess að fara í vínsmökkun. Fyrir utan góð vín, þá státar Bonny Doon víngerðin af ótrúlega skemmtilegri listrænni stjórnun: flöskumiðarnir eru ólíkir öllu öðru sem ég hef séð. Við vorum svo hrifin að við keyptum eitthvað um fimm, sex flöskur ... :D

Vínsmökkun

Um það bil klukkutíma í burtu frá Santa Cruz er Monteray, annar smábær sem er frægastur fyrir stórt sægripasafn. Við heimsóttum það og sáum hákarla, risafiska, slímuga kolkrabba, mörgæsir, otra o.fl., o.fl. Við enduðum safnsferðina á því að fara á "lókal" sjávarréttastað þar sem Bluegrass-band spilaði undir máltíðinni. Allt saman vooooooða gott!

Marglyttur

 

 

Matur

 

Fyrir utan þessar ferðir eyddum við miklum tíma á ströndinni þar sem við slöppuðum af. Frábært að komast úr kuldanum í Minnesota og í hitann í Kaliforníu - lífgar mann algjörlega við! Allt í allt var þetta mögnuð ferð, og San Francisco/Santa Cruz eru staðir sem mig langar pottþétt að heimsækja aftur seinna! Hver vill koma með?? ;)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband