Færsluflokkur: Menntun og skóli

Burton Returns

Ótrúlegt en satt, þá er bara tvær og hálf vika eftir af skólanum. Eftir það þá þarf ég að klára lokaverkefnið mitt - 3-5 mínútna langa stuttmynd fyrir „Directing“-tímann minn, og svo er ég bara floginn heim!

Það verður fínt að koma heim og hitta allt fólkið þar. Þó maður sé orðinn sjóaður í svona löngum námsferðum til útlanda, þá er samt alltaf spennandi að fara heim til Íslands um jólin og á sumrin. Líka, þegar ég vaknaði í morgun þá gat ég ekki hægt að hugsa um Góu Hraun, svo það verðu fínt að endurnýja kynni mín við íslenskt nammi. Amerískt nammi er ógeðslegt.

Þessi helgi er líklegast sú fyrsta rólega síðan ég kom hingað út. Mér tókst að klára meira og minna öll heimaverkefni fyrir Thanksgiving fríið í næstu viku, og hafði tíma til að heimsækja MoMA (Museum of Modern Art) í fyrsta skiptið í gær. Þar er verið að opna sýningu tileinkaða Tim Burton. Búið að hæpa þetta mikið upp hérna, og mjög spennandi að sjá hvernig þetta allt lítur út.

Sýning sjálf opnar ekki fyrr en í dag en hún stendur yfir til 26. apríl, svo það er nægur tími til að kíkja (svo fæ ég líka frítt inn því ég er nemi í Columbia, veió). Tilgangur ferðarinnar í gær var að fara í bíó - allar myndirnar hans Burton verða sýndar í stórum bíósal næsta hálfa árið. Í gær fór ég að sjá Edward Scissorhands og Batman Returns. Ég hef séð þær báðar margoft, en það var ótrúlega skemmtilegt að horfa á þær með troðfullum sal (týpu-hlutfallið var samt furðulegt: 50% „venjulegt“ fólk, 25% emo/mainstream-goth/post-Burton-Twilight-kids, 25% ellilífeyrisþegar). Sérstaklega Batman Returns - Christopher Walken vakti sérstaklega mikla kátínu áhorfenda og myndin er uppfull af frábærum línum sem virka best í svona fullum sal.

Batman Returns er semsagt aftur orðin uppáhalds Batman myndin mín. Hún tekur sig það mátulega alvarlega að Christopher Nolan myndirnar virka hálf tilgerðarlegar í samanburði. Og Nolan myndirnar eru ekki með tónlist eftir Danny Elfman, heldur. Og Michael Keaton er svona tuttugusinnum svalari Batman en Christian Bale. Val Kilmer er svalari en Christian Bale.

Batman Returns er líka með langflottustu markaðsherferð allra Batman-myndanna.

batman returns ver1 

batman returns ver2 

batman returns 1 

 

Öll 8 plakötin má finna hér.  


Betra seint en aldrei!

Jæja, hérna koma þá fyrstu myndirnar.

Eins og sést, þá tókst mér ekki að ná myndir af öllu á listanum, en hafið engar áhyggjur - þetta er svona verkefni „in progress“ og ég mun halda áfram þar til öllum myndum hefur verið náð.

Annars er það af mér að frétta að í dag lék ég í fyrsta skipti á „sviði“ fyrir framan Directing Actors bekkinn minn. Ég og Pei-Ju vinkona mín tókum 13 blaðsíðna langa senu úr leikritinu/kvikmyndinni The Shape of Things eftir Neil LaBute, og tókst ágætlega vel til. Ég var ekkert smá stressaður áður en við byrjuðum, enda hef ég ekki leikið á sviði síðan í, hvað, 1. bekk í grunnskóla, þegar ég var sögumaður í Þyrnirósu?

(Jú, ók .. svo komu meistaraverkin um Afa gamla, þar sem Atli Freyr lék afgreiðslukonu í rauðri dragt ... og já, líka Páls-Óskars-Eurovision-senan ógleymanlega ... og svo kannski líka dimmisjón „atriðin“ við útskriftina í MH ... tvisvar sinnum!)

Hvað um það. Þegar leiknum var lokið, þá komst ég að því að þetta var ekki jafn hryllilegt og ég hafði búist við. Jú, þetta var frekar scary á köflum og ég var mjög hræddur um að gleyma línunum mínum (þetta voru 13 - ÞRETTÁN! - blaðsíður) en ég var greinilega búinn að undirbúa mig vel, svo það var ekkert vandamál. Ég held samt að ég reyni að halda mig sem mest fyrir aftan myndavélina ... held að það sé frekar „my thing“ ...

Tisho kemur svo í heimsókn núna á föstudaginn svo ég fæ fleiri tækifæri til þess að túristast aðeins. Sem er mjög fínt, því það er engin lygi að maður býr liggur við í skólanum. Við erum bókstaflega alltaf þar. Ein stofan - 511 - sem er svona stór bíósalur/fyrirlestrarsalur - er sérstaklega skelfileg staðsetning og ég held að flest okkar séu komin með ógeð á henni, enda eyðum við sirkabát 119212 klukkutímum á viku þar. (Samt flott stofa og fínn staður :P)

Þegar hann kemur þá fæ ég frekari afsökun til að fara út og taka fleiri myndir, svo búist við fleiri öppdeitum á næstunni! :) 


Læri læri, lær lær.

Maður veit að maður er kominn til New York þegar maður er á leiðinni heim rúmlega tíu um kvöld og gengur framhjá grönnum, gömlum svörtum manni með sólgleraugu sem heldur á Biblíu uppi við eyrað og kallar „Hallelúja!“ og „I love you!“ hástöfum til vegfaranda.

Annars vissi ég alveg að ég væri í New York, sko.

Núna er maður fyrst farinn að finna fyrir álaginu í skólanum. Það er ekki nóg að skila bara inn verkefnum og þannig, heldur verða verkefnin að vera skapandi líka. Sem er frábært og einmitt það sem ég vildi, en það er stundum erfitt að setja sig í „skapandi“-gírinn þar sem maður þarf að “búa“ eitthvað „til“ sisvona.

En hins vegar er líka eitthvað til í því að um leið og maður setur sig í þann gírinn, þá fara alls kyns hugmyndir láta á sér kræla. í þessari viku tek ég upp fyrstu leikstjórnaræfinguna mína, skila inn fyrsta „alvöru“ uppkastinu að handriti sem ég mun mögulega nota í lokaverkefni annarinnar, og þarf líka að halda áfram að þróa handrit í fullri lengd ... nema hvað að ég veit ekki hvaða mynd það verður, endilega, þar sem ég skilaði af mér þremur hugmyndum og svo velja prófessorarnir þá hugmynd sem þeim finnst að ég ætti að eyða mestum tíma í.

Þá er ekki með talin sena sem ég þarf að læra utan að og flytja (!!) eftir viku (úr Shape of Things eftir Neil LaBute .. sem er ansi mögnuð mynd, ef þið hafið ekki séð hana!). Þetta hljómar kannski eins og ég sé að kvarta, en það er alls ekki málið. Mér finnst þetta æðislegt. Hef bara ekki um mikið annað að skrifa eins og er út af öllu þessu! :)

Svo er aldrei að vita nema að ég standi svo við það sem ég lofaði - þ.e. að skrifa meira og oftar! Og birta kannski líka myndir! Myndavélin mín hefur verið algjörlega óhreyfð síðan ég kom út. Ekki vegna þess að mig langar ekki að taka myndir, heldur vegna þess að ég gleymi henni alltaf. Og líka vegna þess að ég veit að ef ég tek myndir, þá á tölvan mín eftir að hálf-deyja við það að færa þær inn. Ég elska tölvuna mína, en hún er nú orðin soldið gömul, greyið :(


Skólarapp

Það er aðeins erfiðara að byrja aftur í skóla en ég hélt. Aðallega erfitt að skipuleggja sig ... sérstaklega í þessari viku sem er að byrja.

Núna er í gangi svolítið sem kallast „crit-week“, sem þýðir að við þurfum ekki að mæta í tíma (bara fyrirlestra) en í staðinn þurfum við að mæta í myndavéla-og hljóð workshops og svo fylgjast með annars-árs nemum sýna verkefnin sem þeir unnu að í sumar. Þessi verkefni eru kölluð „8-12“ myndir, því þau eiga að vera 8-12 mínútna löng, og sýningarnar eru þannig að þrír prófessorar og svo hópur af fyrsta árs nemum horfir á myndirnar í skólastofu, og síðan taka prófessorarnir sig til við að gagnrýna myndirnar í tætlur.

Þetta er víst mjög taugatrekkjandi fyrir þá sem eiga myndirnar, en mjög skemmtilegt fyrir hina. Okkur var einnig sagt að við myndum hlæja að þessu núna í ár en gráta á næsta ári þegar við sýnum okkar myndir ...

Þar sem þessar sýningar og svo worksjoppin eru á mismunandi tímum, þá þurfum við að skrá okkur í tímana og þurfum að passa upp á að tímarnir stangist ekki á. Sem mér þykir ótrúlega flókið í augnablikinu .. og ég er svolítið stressaður að ég sé búinn að tví-, ef ekki þríbóka mig í vikunni.

En þetta reeeeeddast, eins og við Íslendingar segjum.

Ég er líka byrjaður að gera tilraunir við eldamennsku hérna úti. Eldaði minn rómaða (lesist: ekki rómaða) núðlurétt í fyrradag og hann heppnaðist bara ágætlega. Svo gerði ég tortillur í gær, sem heppnuðust líka vel. Tortillurnar mínar og núðlurétturinn eiga það sameiginlegt að innihalda nákvæmlega sama hráefnið nema að það eru tortillur og salsasósa í þeim fyrri og núðlur og stir-fry sósa í þeim seinni. Svona er ég tilraunagjarn.

Talandi um að elda mat, þá ætla ég að lýsa kostum og ókostum þess að versla hérna í New York.

Kostir:

* Kjúklingur er ógeðslega ódýr.

Ókostir:

* Allt annað er ÓGEÐSLEGA dýrt.

Þar hafiði það.

Ég lofa að birta myndir bráðum! Tölvan mín er bara orðin svo yfirgengilega hægfara að ég þori ekki að tengja myndavélina mína við hana af hræðslu við að hún fari yfirum ... Ég ætla hins vegar að birta mynd af skemmtilegri mynd sem ég sá um daginn, Orphan. Mjöööög skemmtileg. Smá rusl, og alls ekki lógísk, en flott, skemmtileg og spennandi! Mæli með henni fyrir þá sem vilja heiladauða skemmtun.

orphan


Þegar maður misskilur hlutina ...

Ég er ekki mikið að rétta upp hönd í sumum tímunum hérna til að svara spurningum, en í dag þegar kennarinn spurði bekkinn hvort þeir gætu tekið saman ljóðið Washing Day eftir Önnu Barbauld í einföldu máli, þá þurfti ég endilega að hreyfa mig eitthvað í stólnum svo hann benti á mig.

Að sjálfsögðu ákvað ég að svara eftir bestu getu og útskýrði hvernig ljóðið fjallaði í raun og veru um kynjabaráttu þar sem þvottadagar voru "mikilvægir" fyrir konur á meðan karlmenn voru keisarar og tæknifrömuðir. Ég útskýrði hvernig heimilsstörf voru ættgeng fyrir konur (sbr. amma Barbaulds og áhugi hennar sjálfrar á deginum sem barn) á meðan völd og stærri embætti voru ættgeng fyrir karla. Ég tók sem dæmi að sápukúlur Barbaulds væru lítils virði miðað við loftbelgi Mongolfier bræðranna.

En nei. Ég gerðist sekur um grófa oftúlkun. Ljóðið er í raun og veru satíra á það hversu alvarlega allir litu á þvottadaginn. Sápukúlurnar og loftbelgurinn áttu að tákna það hversu "uppi í loftinu" karlmenn væru; að þeir væru of uppteknir af eigin leikföngum. Núna verð ég þekktur sem oftúlkarinn í bekknum. Gæti verið verra.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband