Af hryllingsmyndum

Bara svo fólk hafi það á hreinu, þá hefur hryllingsmyndaáhugi minn ekkert dvínað á síðustu árum. Ef eitthvað er, þá hefur áhuginn aukist og er orðinn mun flóknari (og óáhugaverðari fyrir suma) en hann áður var.

Og þess vegna þarf það ekki að koma neinum á óvart að síðustu fjórar myndir sem ég hef séð hafa verið ansi hryllilegar. Og ég nenni ekki að fara að sofa, svo ég ætla að skrifa aðeins um þær.

Funny Games 2008 er endurgerð samnefndrar þýskrar myndar eftir Michael Haneke (sem gerði Caché og fékk fullt af verðlaunum fyrir) og er með Naomi Watts, Tim Roth og Michael Pitt í aðalhlutverkum. Myndin er ekki bara endurgerð, heldur skot-fyrir-skot endurgerð, sem er, að mínu mati, eitt það tilgangslausasta sem hægt er að framleiða. 

Eða svo hélt ég. Ég hef ekki hugmynd um af hverju Haneke vildi endurgera myndina sína á þennan hátt, en að mínu mati passar hún fullkomlega inn í það sem er að gerast í Hollywood þessa dagan. Það er hægt að sjá þessa mynd sem viðbragð og svar við myndum eins og Hostel eða Captivity (þ.e. myndum sem gagnrýnendur hér vestra vilja kalla "torture porn"). Þetta eru hryllingsmyndir sem hafa hægt og rólega fært áhersluna frá spennu og hryllingi yfir í bara hrylling, og mikið af honum. Fullt af opnum sárum og raunsæislegum förðunarbrellum o.þ.h. Sumir vilja halda því fram að þessi tegund mynda sé runnin undan rifjum pyntinganna sem voru stundaðar í Guantanamo Bay og annars staðar, en ég vil halda því fram að þetta séu smekklausar myndir gerðar af letingjum sem kunna ekki að gera betur.

Funny Games er svipuð að því leiti að það er mikið um pyntingar og óhugnað, nema hvað að allt er sett fram á mjög "fölskum" nótum; Haneke setur myndina upp eins og Brecht-leikrit þar sem illmennin standa fyrir utan "söguna" - eða öllu heldur, skapa söguna - á meðan fjölskyldan sem þeir halda í gíslingu eru hluti af raunveruleika sögunnar. Sumir leikarar tala beint við áhorfendur. Myndin er öll tekin upp þannig að við sjáum bara það sem Haneke vill að við sjáum, sem er oftar en ekki öfugt við það sem við erum vön að sjá. Myndavélin hreyfist sjaldan, og ef hún hreyfist þá er hreyfingin augljós og dregur athygli að sér, o.s.frv.

Pyntingarnar eru næstum því óáhorfanlegar. Þetta er pottþétt ekki mynd fyrir veikar sálir, en hún er afskaplega vel gerð. Og þó svo mér finnist Haneke stundum ganga einum of langt í "boðskapnum", þá er alveg þörf á kvikmynd sem fær áhorfendur til að spyrja sig hvað það er sem þeir vilja sjá - eða búast við að sjá - þegar þeir sjá hryllingsmyndir. Þetta er semsagt hryllingur fyrir hugsandi fólk. Haneke segir að þeir sem gangi út af myndinni hafi enga þörf fyrir hana, öfugt við þá sem sitja hana út í gegn. Hvað sem það þýðir.

Trailerinn fyrir myndina er áhugaverður. Næstum því jafn sjúkur og myndin sjálf, og gerir út á "svarta húmorinn" sem gengur í gegnum myndina. En ég skal segja ykkur það að myndin er lítið fyndin og mikið hryllileg.

Doomsday. Og uppáhaldsmyndin mín árið 2008 er ... DOOMSDAY! A.m.k. hingað til. Ég er ekki að djóka, þetta er skemmtilegasta mynd sem ég hef séð síðan ég sá Serenity fyrir nokkrum árum. Ekki það að Doomsday og Serenity séu líkar, þær eru bara yfirgengilega skemmtilegar.

Doomsday er klikkuð blanda af Mad Max, Aliens og 28 Days Later. Hún er gerð af Neil Marshall, sem gerði The Descent. Ef þið eruð ekki búin að sjá The Descent, aka bestu hryllingsmynd síðustu 30 ára, þá skuluð þið gera það strax. Svo skuluð þið sjá Doomsday, sem er yndislega yndisleg. 

Hérna er trailerinn fyrir Doomsday. Ekki alslæmur, en gefur ykkur enga hugmynd um það hversu brjáluð þessi mynd er!

 

The Ruins -Fyrsta bókin sem ég las þegar ég kom hingað út var The Ruins eftir Scott Smith. Fín bók, mjög óhugnaleg og hraðlesin. Mæli með henni fyrir þá sem fíla hryllingsbókmenntir.

Ekki hafði ég samt hugmynd um að það ætti að kvikmynda hana, sérstaklega ekki svona snemma. En svo sá ég þetta ...

... og varð strax spenntur. Ég efast um að trailerinn virki jafn vel á þá sem hafa ekki lesið bókina - þ.e. þá sem vita ekki um hvað sagan snýst - en ég lofa ykkur því að þetta er helvíti góð mynd. Spennandi, ógeðsleg, fyndin og einfaldlega skemmtileg. Vel leikin líka! En bókin er samt betri. Leiðinlegt að endinum hafi verið breytt ...

Síðast, og allra síst, er það myndin Satan's Playground eftir hinn hæfileikalausa Dante Tomaselli. Það er ekki oft sem maður sér gjörsamlega ömurlegar myndir, en Satan's Playground er án efa ein ömurlegasta mynd sem ég hef séð.

Hér er t.d. góð lína úr myndinni, þegar ein persónan lýsir skringilegu hljóði sem hún heyrði: "It's like a helicopter or something ... or a giant bird."

Því þyrlur og fuglar hljóma svo svipað.

Svo er alveg yndisleg persóna í þessari mynd sem er heyrnarlaus og mállaus, en getur samt heyrt í móður sinni kalla og öðrum persónum banka á glugga. Svo kann hún líka að raula barnavísur sem hún hefur aldrei getað heyrt, hvað þá endurtekið.

Ef þið getið komist í gegnum þennan síðasta trailer, þá þurfið þið ekki að horfa á alla myndina. Hann er næstum því jafn ömurlegur og myndin sjálf, nema bara fimm mínútur í staðinn fyrir níutíu (já, FIMM mínútur!).

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

I beg to differ. Ég sá Funny Games og mér fannst hún ömurleg. Ö M U R L E G ! Ég neita því samt ekki að mörg atriðanna voru spennandi (en bara á svona cheap yfirborðskenndan hátt; það vekur alltaf spennu þegar vondur morðingi eltir lítinn strák etc) og leikararnir voru ágætir þrátt fyrir að öll hlutverkin í myndinni séu sérlega óáhugaverð og einhliða (og piltarnir fannst mér satt að segja ekkert spes, bara þurrir og leiðinlegir og öll atriðin með þeim þvinguð og leiðinleg) . Og ég sit og horfi og svo fer mér að leiðast því ég finn ekki söguna í myndinni og þá fer ég að spyrja mig hvað ég sé eiginlega að gera í þessum bíósal (sem er aldrei gott), og síðan eftir langa mæðu kemur sko dropinn sem fyllir mælinn þegar annar piltanna einfaldlega spólar til baka þegar honum líkar ekki hvernig myndinni vindur fram. Spólar til baka. Bókstaflega. Ég hélt ég myndi æla (og allur bíósalurinn andvarpaði í kór). Á þeim tímapunkti langaði mig til að standa upp og fara út. Síðan lýkur myndinni með einhverju "heimspekilegu" samtali milli piltanna (sem á væntanlega að útskýra/afsaka myndina og hnýta lausa enda). Ég er sammála einum gagnrýnanda sem sagði "This is not a movie. It's a thesis." eða eitthvað álíka. Persónurnar eru svo einhliða að ég hef aldrei vitað annað eins. Maður veit ekkert um þetta fólk nema að því finnst vont að láta meiða sig. En áhugavert. Jú, og þau eru vel efnuð og hlusta á klassíska tónlist í bílnum. Það er líka besta atriðið í myndinni.

Ég vil taka það fram að Haneke gerði aðra mynd sem fjallaði líka að einhverju leyti um bíó-raunveruleika og okkar raunveruleika og það var Caché. Sú mynd var frábær því hún því hún reyndi ekki að troða þessu "sanna, heimspekilega umfjöllunarefni" sínu í kokið á áhorfendum eins og Funny Games gerir. Jebús, hvað ég var illa svikinn af þessari mynd.

Baldvin Kári (IP-tala skráð) 7.4.2008 kl. 15:16

2 identicon

Ég er ekki ósammála flestu sem þú segir, nema bara að ég held að þetta hafi allt verið gert af ástæðu. "Ég finn ekki söguna í myndinni og [...] fer að spyrja mig hvað ég sé eiginlega að gera í þessum bíósal": Sem er, líklegast, það sem Haneke vill að þú sért að spyrja sjálfan þig. "Af hverju er ég að horfa á mynd þar sem venjuleg fjölskylda er pyntuð til dauða?" Brechtíska aðferðin er notuð til þess að skapa fjarlægð milli áhorfenda og myndarinnar einmitt til þess aðáhorfendurnir lifi sig ekki inn í söguna. Myndin á að vera yfirborðskennd. Það er engin dýpt í henni því að dýptin myndi sökkva okkur í söguna. Við finnum bara til með fjölskyldunni vegna þess að hún er auðveldasta leiðin til þess að veiða samúð með áhorfendum: Allir millistéttaráhorfendurnir þekkja þessa fjölskyldu. Þegar þú segir að fjölskyldan sé einhliða, þá ertu að líta framhjá því að hún á að vera einhliða. Haneke reynir ekki að skapa neina auka-samúð með þeim, því hann þarf tæknilega ekki á því að halda. 

Það er satt að þessi mynd virkar meira eins og "thesis" heldur en kvikmynd, en af hverju má ekki gera svoleiðis tilraunir? Að mínu mati er það augljóst hvað Haneke vill gera með þessa mynd, og hann leikstýrir henni samkvæmt því. Hún virkar sem slík. En hvað er kvikmynd? Og hvað gerir þessa mynd að minni kvikmynd? Ef kvikmyndir ganga út á það að blekkja áhorfendur, að ginna þá í að trúa því sem þeir eru að sjá, þá er Funny Games algjör andstæða. Hún er þess vegna miklu "sannari" en aðrar myndir, því hún dregur athyglina að lyginni. 

Spóla-til-baka-atriðið var það sem ég var að tala um þegar ég sagði að mér fyndist hann ganga of langt í að skapa fjarlægð milli áhorfenda og myndarinnar. En þó svo hann hafi farið yfir strikið, þá finnst mér ekki að atriðið hafi verið tilgangslaust, heldur að það dragi athygli að spurningunni: Hvað er það sem ég vil sjá, og hvað er það sem ég býst við að sjá. Það sem gerist áður en myndin spólar til baka er það sem við viljum að gerist (ef við höfum e-n áhuga á því að sjá persónurnar lifa af), en vondu strákarnir eru í raun og veru ekki partur af "kvikmyndinni" - þeir eru "thesis" parturinn, þeir eru gagnrýnin á þessa tegund mynda - og þess vegna er spólað til baka. Þeir vilja ekki "happy ending" og neita að gefa áhorfendunum hann. 

Ég er hins vegar ekki sammála því sem þú segir, að Funny Games reyni að troða þessu "sanna, heimspekilega umfjöllunarefni" sínu í kokið á áhorfendum. Allt sem vondu gaurarnir segja er stór klisja. Þeir eru ósamkvæmir sjálfum sér. Þeir eru algjörlega einhliða persónur, eða engra-hliða persónur því þeir eru ekki samkvæmir sjálfum sér. Heimspekin, þess vegna, hljómar eins og einhver að verja það sem þeir voru að gera/myndina, en á afskaplega ósannfærandi hátt: Haneke er að segja að það er ekki hægt að verja þetta án þess að hljóma tilgerðarlega! Ofbeldi er alltaf ofbeldi, hvernig sem litið er á það. Ef einhverjir gáfumenn ætla að halda því fram að ofbeldið í Funny Games þjóni einhverjum uppbætandi tilgangi, þá myndu þeir tala eins og vondu kallarnir.

Ég efast um að ég eigi eftir að horfa á þessa mynd aftur, en mér fannst hún mögnuð á meðan ég horfði á hana.

moi (IP-tala skráð) 7.4.2008 kl. 16:05

3 identicon

Sko ... þegar ég spyr mig "hvað ég sé eiginlega að gera í þessum bíósal" eru það ekki "djúpar" vangaveltur um ofbeldi og áhorf. Heldur er það einfaldlega af því að mér leiðist og finnst tíma mínum sóað. Ef myndin átti að vera yfirborðskennd og grunn þá óska ég Haneke til hamingju með að hafa náð því merka og krefjandi markmiði. Sannleikurinn er hins vegar sá að ég gæti nefnt milljón myndir sem eru álíka grunnar og yfirborðskenndar ... þannig að ég veit ekki alveg hvað hann þykist hafa áorkað með þessu. Hvers vegna að setja markið svona lágt?

"En hvað er kvikmynd?" spyrð þú. Ef þú vilt eitt álit á því þá geturðu lesið "What is a Movie?" eftir James Conant. Eða betra: þú getur lesið BA ritgerðina mína "Að horfa á kvikmynd er góð afþreying: Um heimsfræði kvikmynda og stöðu áhorfandans", ég vitna einmitt í Conant í þeirri ritgerð. Við Conant værum eflaust sammála um að Funny Games sé tæknilega EKKI bíómynd (í merkingunni "photographic narrative film") af ýmsum ástæðum, og ekki síst vegna þess að í stað þess að skapa sér heim sem er sjálfstæður frá heimi áhorfandans þá er áhorfandinn stöðugt minntur á að allt sem hann er að horfa á er plat.

Þú virðist álíta að þetta geri hana að meiri bíómynd því hún dregur einmitt athygli að "lyginni". Ég er í fyrsta lagi algjörlega ósammála að bíómyndir gangi út á að "blekkja" áhorfendur, nema mögulega að svo miklu leyti sem frásögn er blekking (sem mér finnst raunar alls ekki besta leiðin til að lýsa frásögn).

Í öðru lagi held ég að þú sért að rugla saman siðfræði og frumspeki eða verufræði þegar kemur að boðskap/tilgangi myndarinnar. Ég held að pæling Haneke risti dýpra en að reyna að pota í fólk og fá það til að spyrja sig hvers vegna það kjósi að horfa á tilgangslaust ofbeldi. Það er svo mikil klisja eitthvað. Og ég held að enginn sannur gáfumaður myndi reyna að halda því fram að ofbeldið sé "uppbætandi" á nokkurn hátt. Piltarnir tala ekki bara um ofbeldi í lokin, heldur um veruleikann og hvað sé raunverulegt og hvað ekki, þótt þeir geri það vissulega líka á afar klisjukenndan hátt. Og ég held að sú hlið á myndinni sé það sem Haneke vildi varpa ljósi á, ekki bara ofbeldið.

Hvað sem því líður þá vil ég ljúka þessu litla kommenti á orðum Derek Elley sem skrifaði um myndina fyrir Variety (grein sem ég fann þegar ég var að leita að handriti myndarinnar á netinu):

"Problem is, as the film progresses, it becomes painfully clear there’s no real point to the story; what we’re witnessing is a cool, intellectual exercise, as devoid of character and motivation as the two psychos themselves."

Þú virðist álíta að það sé einmitt markmið leikstjórans og því ættum við að fagna þessari mynd. Ég, aftur á móti, sé enga ástæðu til að fagna mynd sem er algjörlega óáhugaverð, sama hvort það var ætlun höfundarins eða ekki.

We'll agree to disagree, as usual.

Baldvin Kári (IP-tala skráð) 7.4.2008 kl. 20:25

4 identicon

Já, ég held það.

Og ég held líka að mér finnist myndin áhugaverð einmitt vegna þess að hún er "ekki" kvikmynd, heldur "intellectual excercise". Eins og ég sagði þarna fyrir ofan, þá finnst mér hún ganga upp sem slík. SEM SLÍK. Ég sagði heldur aldrei að við ættum að fagna henni. Ég sagði bara að mér hefði fundist hún áhugaverð og mögnuð. Hún fékk mig til að pæla í henni út í gegn (og eftir á) og ég a.m.k. ennþá talandi um hana í dag. Þú líka. Ég myndi samt ekki mæla með henni. Ég skil alveg hvað þú meinar og af hverju þú fílaðir hana ekki. Mér finnst bara að það sé hægt að nálgast svona mynd með aðeins opnari hug en flestar aðrar "venjulegar" myndir, sérstaklega þar sem hún hreinlega biður okkur um að gera það með því að láta persónurnar tala beint í myndavélina. 

Þar með er ekki sagt að þú (eða aðrir) verði að horfa á hana á hennar forsendum, en það er líka hálf tilgangslaust að gagnrýna hana vegna þess að hún uppfyllti ekki einhver skilyrði sem hún ætlaði sér aldrei að uppfylla.

Ég sagði heldur aldrei að mér fyndist hún "meiri bíómynd" vegna þess að hún dregur athygli að "lyginni"; ég sagði að hún væri "sannari", sem er kannski ekkert sérstaklega vel orðað. Ég meinti að hún er hreinskilnari í því sem hún er að reyna að koma á framfæri - hún felur boðskapinn ekki. 

Hvort sem myndin er "kvikmynd" í þínum skilningi eða Conants breytir því þó ekki að Funny Games er ekki fyrsta myndin sem leitast við að fjarlægja áhorfandann frá sögunni, og mér finnst það svolítið stórt upp í sig tekið að kalla þann flokk kvikmynda "ekki"-kvikmyndir. Eða hvað myndirðu kalla þær? Og gegna þær þá engum öðrum tilgangi en að pirra svokallað fræðifólk? I beg to differ.

moi, again (IP-tala skráð) 8.4.2008 kl. 01:51

5 identicon

Og með "svokallað fræðifólk" á ég ekki við þig, heldur ímyndaða útgáfu af Contant. Sem ég þekki ekki neitt. Þú er "sannkallað fræðifólk", Baldvin minn.

eot (IP-tala skráð) 8.4.2008 kl. 01:54

6 identicon

Ætla bara að benda á eitt og svo skal ég halda mér saman. Þessi skilgreining Conants kveður bara á um að Funny Games sé ekki "photographic narrative film" þótt hún sé vissulega "film" (enda tekin upp á filmu, t.d.). Og ég er sammála því að Funny Games sé engan vegin "narrative film" í þessum tæknilega skilningi.

Nánari útskýring (fyrir þá sem vilja): Í ritgerðinni sinni fjallar Conant bara um "photographic narrative films" sem útilokar t.d. teiknimyndir, heimildarmyndir, fréttamyndir, fjölskylduvídeó og svo framvegis. Í þessu felst enginn dómur um þessa útilokuðu flokka, hann er bara að skilgreina umfjöllunarefni sitt. Og til hægðarauka ákveður hann að kalla "photographic narrative films" "movies" í ritgerðinni (bara til þess að flýta fyrir) og notar orðið "films" sem yfirheiti sem nær yfir allt sem fangað er á filmu. Í íslenskun minni á þessum "hugtökum" (sem voru bara ætluð til þæginda fyrir greinarhöfundinn, ekki sem einhver ný uppfinning) kallaði ég "movies" "bíómyndir" en "films" "kvikmyndir". Síðan hélt Conant áfram og reyndi að setja fram einhver skilyrði sem "kvikmynd" (film) þyrfti að uppfylla til að geta talist "bíómynd" (movie/photographic narrative film).

Eitt skilyrði sem hann setti var að "bíómyndir" þyrftu að hunsa áhorfandann (bókstaflega), þ.e. aldrei að ávarpa hann beint eða viðurkenna tilvist hans á nokkurn annan beinan hátt. Taktu eftir, að þetta er þó ekki það sama og að hunsa væntingar áhorfandans til frásagna almennt (og það þýðir heldur ekki að maður verði að uppfylla allar frásagnarlegar væntingar áhorfandans). En í þessu sagði hann að listin væri fólgin: að skapa eitthvað sem er ætlað til áhorfs, en láta það samt líta út eins og það geri ekki ráð fyrir áhorfanda. Að láta eitthvert sköpunarverk virðast náttúrulegt. Og ég held að hreinskilnin sem er fólgin í slíkri bíómynd sé mun áhugaverðari (og erfiðari viðfangs) en sú "hreinskilni" sem felst í að viðurkenna tilvist þessara væntinga áhorfenda eða tilvist áhorfendanna sjálfra. Sú bíómynd er hreinskilin gagnvart sjálfri sér og persónum sínum, sem mér finnst skipta mestu máli.

Mér finnst gagnrýni mín samt ekki tilgangslaus (þótt hún sé að vissu leyti bara að benda á hið augljósa) því mér finnst hún einmitt útskýra hvers vegna þessi "intellectual exercise" mistókst. Eða, ef þér finnst of dómhart að segja að hún hafi mistekist, þá útskýrir hún a.m.k. hvers vegna Funny Games er ekki "bíómynd".

Ég þakka þeim sem hlýddu.

-BKNY

Baldvin Kári (IP-tala skráð) 8.4.2008 kl. 03:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband