Skólarapp

Það er aðeins erfiðara að byrja aftur í skóla en ég hélt. Aðallega erfitt að skipuleggja sig ... sérstaklega í þessari viku sem er að byrja.

Núna er í gangi svolítið sem kallast „crit-week“, sem þýðir að við þurfum ekki að mæta í tíma (bara fyrirlestra) en í staðinn þurfum við að mæta í myndavéla-og hljóð workshops og svo fylgjast með annars-árs nemum sýna verkefnin sem þeir unnu að í sumar. Þessi verkefni eru kölluð „8-12“ myndir, því þau eiga að vera 8-12 mínútna löng, og sýningarnar eru þannig að þrír prófessorar og svo hópur af fyrsta árs nemum horfir á myndirnar í skólastofu, og síðan taka prófessorarnir sig til við að gagnrýna myndirnar í tætlur.

Þetta er víst mjög taugatrekkjandi fyrir þá sem eiga myndirnar, en mjög skemmtilegt fyrir hina. Okkur var einnig sagt að við myndum hlæja að þessu núna í ár en gráta á næsta ári þegar við sýnum okkar myndir ...

Þar sem þessar sýningar og svo worksjoppin eru á mismunandi tímum, þá þurfum við að skrá okkur í tímana og þurfum að passa upp á að tímarnir stangist ekki á. Sem mér þykir ótrúlega flókið í augnablikinu .. og ég er svolítið stressaður að ég sé búinn að tví-, ef ekki þríbóka mig í vikunni.

En þetta reeeeeddast, eins og við Íslendingar segjum.

Ég er líka byrjaður að gera tilraunir við eldamennsku hérna úti. Eldaði minn rómaða (lesist: ekki rómaða) núðlurétt í fyrradag og hann heppnaðist bara ágætlega. Svo gerði ég tortillur í gær, sem heppnuðust líka vel. Tortillurnar mínar og núðlurétturinn eiga það sameiginlegt að innihalda nákvæmlega sama hráefnið nema að það eru tortillur og salsasósa í þeim fyrri og núðlur og stir-fry sósa í þeim seinni. Svona er ég tilraunagjarn.

Talandi um að elda mat, þá ætla ég að lýsa kostum og ókostum þess að versla hérna í New York.

Kostir:

* Kjúklingur er ógeðslega ódýr.

Ókostir:

* Allt annað er ÓGEÐSLEGA dýrt.

Þar hafiði það.

Ég lofa að birta myndir bráðum! Tölvan mín er bara orðin svo yfirgengilega hægfara að ég þori ekki að tengja myndavélina mína við hana af hræðslu við að hún fari yfirum ... Ég ætla hins vegar að birta mynd af skemmtilegri mynd sem ég sá um daginn, Orphan. Mjöööög skemmtileg. Smá rusl, og alls ekki lógísk, en flott, skemmtileg og spennandi! Mæli með henni fyrir þá sem vilja heiladauða skemmtun.

orphan


... eitt enn, um Inglorious Basterds eftir Tarantino ...

... hún er geðveik!

Nýr skóli, nýtt heimili, nýtt land. Nei, kannski ekki alveg ...

Í dag byrjaði ég formlega í námi við Columbia háskóla í New York eftir viku af intensífu „orientation“ prógrammi (takiði eftir hvað sletturnar eru orðnar áberandi? eftir bara rúma viku!) og get ekki annað sagt en að dagurinn hafi verið góður, bara kannski svolítið langur.

Þriðjudagarnir eru þó verstir, enda er ég í tímum alveg frá tvö til tíu með einu klukkutíma hléi (og tveimur styttri pásum) á milli. Þetta hefst, þetta hefst.

Í fyrri tímanum - directing actors - tók ég mig til og gerðist aðstoðarmaður kennarans, svo ég er strax byrjaður að sleikja liðið upp í von um að fá einhvern hluta námsgjaldanna niðurfelldan á næsta ári (sjöníuþrettán).

Annars er meirihlutinn af fólkinu sem er í mínum árgangi frábært (m.a. ein leikkona sem hefur leikið í Buffy, Cold Case og CSI (reyndar New York, en amk ekki Miami) og er líka stjarna í sitcominu My Boys (já nei, ég hafði heldur aldrei heyrt um þann þátt ...). Við erum í heildina 67 og ég hef ekki enn náð að tala við alla, en þau virðast öll mjög spennandi og það verður frábært að fá að vinna með þeim í framtíðinni.

Fyrir utan það að vera byrjaður í skólanum er ég enn að reyna að koma mér fyrir. Dagsferð til Ikea hjálpaði mikið, en samt vantar hitt og þetta en flest það getur beðið.

Núna þarf ég að lesa smá fyrir næsta tíma í fyrramálið þannig að ég kveð í bili en reyni að skrifa meira á næstunni! New York er bara svo tímafrek borg :p


Lagalistinn

Hvað er ég að hlusta mest á þessa dagana?

Beyoncé Knowles - Beautiful Nightmare (Sweet Dreams) - Nýjasta platan hennar Beyoncé er mjög mjög misgóð. Fyrir hvert meistaraverk er annað leiðinlegt og tilgangslaust lag. Sweet Dreams (sem er á Sasha-Fierce-dansdisknum) er með betri lögunum, en mér fannst lagið samt langbest í upprunalegri útgáfu sinni, þegar það hét einfaldlega Beautiful Nightmare.

The Bird and the Bee - Love Letter to Japan - Ég heyrði fyrst í The Bird and the Bee þegar þau gáfu út lagið Again and Again árið 2007 (held ég) og var meira en lítið hrifinn. Núna er komin út ný plata og þetta lag er alveg einstaklega skemmtilegt og catchy. Meira frá þeim, prease.

Erik Hassle - Hurtful - Það er ekki oft sem ég fæ lög á heilann sem eru sungin af karlssöngvara. Ég held að síðast hafi það gert þegar ég fann á netinu Confusion Girl með Frankmusik (sem er farinn að verða hip og kúl í þeim hópum sem telja sig vita eitthvað um slíkt). En þetta lag er æði. Voða skemmtilega sorglegt.

Girls Aloud - Nobody But You - Já vá, surprise surprise, Girls Aloud lag hérna! Þetta er B-skífa frá 2006 og, eins og með svo margar aðrar B-skífur þeirra, skil ég ekki alveg hvers vegna þetta var ekki gefið út eitt og sér. Sigh.

Röyksopp feat. Robyn - The Girl and the Robot - Vélmenni virðast ætla að verða hip-trendið í tónlist árið 2009; fyrst með þessu geðsjúka lagi með þessu skandinavíska hæfileikafólki og svo eru stelpurnar í Girls Aloud að fara að gefa bráðlega út 7 mínútna langa smáskífuna Untouchable sem inniheldur mjög áberandi skírskotun í róbóta. Og bæði lögin eru frábær. Og bæði eiga eftir að verða vinsæl.

(Smellið á nöfnin á lögunum til að sjá vídjó, ef þau eru á annað borð til!)


Er þetta Kreppunni að þakka?

Sumir vilja meina að eitt af því góða sem Kreppan hefur haft í för með sér, sé vinalegra viðmót landans. Ég á nú alveg eftir að sjá slík dæmi í verki til þess að geta sammælst þessari hugmynd, en eitt er þó víst að Apple á Íslandi er búið að ráða til sín nýja PR-manneskju sem er talsvert vinalegri en áður hefur þekkst.

Nýjasti fjöldapósturinn frá þeim var barasta skemmtilegur. Og fyndinn. Og mann langaði næstum því til að gleyma allri stirðbusalegri þjónustunni sem maður hefur þurft að sæta frá þessu fyrirtæki hingað til. 

Þar sem ég elska Apple og allt sem það góða fyrirtæki skapar, þá finnst mér það nokkuð gott að útibúið á Íslandi skuli vera að lappa upp á ímynd sína. Verðin, þó svo þau séu enn há, eru heldur ekki eins hryllilega óyfirstíganleg og þau hafa oft virtst vera. Nýji iMakkinn kostar t.a.m. „aðeins“ tæpar 250.000 kr. 

Oh hvað mig langar í!!!


Hugleiðingar um Óskarinn 2009

oscar statue

Það sem máli skiptir:

1. Danny Boyle vann

2. Sophia Loren er ennþá fabú

3. Einhver (í þetta skiptið Sean Penn) fékk að halda tilfinningaþrungna, pólitíska ræðu sem tengdist beinlínis myndinni sem hann vann verðlaunin fyrir.

Annað:

* Hugh Jackman tókst vel til.

* Beyonce stal senunni.

* Baz Luhrmann var ekki að fíla sitt hlutverk í sjóinu.

* SJP er með kryppu og er óþolandi.

* Jennifer Aniston hlýtur að hafa liðið illa uppi á sviði að kynna barnalegustu verðlaunin ásamt Jack Black á meðan gullparið Brangelina sat á fremsta bekk með græna demanta og nýfægð Colgatebrosin „on display“.

* Christopher Walken er orðinn gaaaamall. :(

* Meryl Streep er að taka við hlutverki Jack Nicholson sem svona omnipresent gamalmenni. Nema hvað að hún er ennþá sæt og æði. Hann er líka æði reyndar ... ji. 

Það sem skipti engu máli:

* The Curious Case of Benjamin Button.


Conundrum

Nú þegar maður er nýbúinn að sækja sér nýjustu útgáfuna af Firefox, komplett með íslensku viðmóti og alles, hvað á maður þá að gera þegar Apple kynnir til leiks nýjustu útgáfuna af Safari?

Ég þori varla að prófa hana. Ég er svo sáttur við nýja Firefox og allar skemmtilegu viðbæturnar sem ég er búinn að sækja mér. Ég er að spá í að kjósa „blissful ignorance“ þegar kemur að Safari og sækja ekki nýju útgáfuna.

A.m.k. ekki fyrr en um helgina.


OMFG!

Ésús.

Ok. 

Í fyrsta lagi: Kylie Minogue kynnti þær. THE KYLIE!

Í öðru lagi: Sjáiði þetta intró? Sjáiði Kimberley að kíkja bakvið tjöldin?

OMFG.

Stelpurnar í Girls Aloud komu, sáu og stórsigruðu á Brits verðlaunaafhendingunni um daginn. Þær voru að vísu bara tilnefndar til tveggja verðlauna og unnu því miður bara önnur verðlaunin - fyrir bestu smáskífu ársins: The Promise. (Hin tilnefningin var fyrir bestu hljómsveit ársins).

The Promise er lag sem er ómögulegt að ná út úr hausnum á sér eftir svo lítið sem eina hlustun. Og svo er eins og það verði betra og betra í hvert skipti sem maður hlustar á það. Mér, t.d., þótti lagið ekkert sérstaklega merkilegt þegar ég heyrði það fyrst - fannst það ágætt og skemmtilegt, en alls ekkert spes þannig séð - en samt sem áður hefur því tekist að klifra upp iTunes Top 25 listann minn á metrahaða (er nr. 11 með 113 spilanir, og þar eru ekki með taldar spilanir á „album version“ útgáfunni, sem eru 29 talsins!). 

Hvað um það. Þótt þær hafi sigrað fyrir besta lag þá lá stærsti sigurinn í flutningi þeirra á þessu lagi sama kvöld. Þær nýttu tækifærið til þess að koma fram í fyrsta skipti á þessum virti verðlaunum mjög vel og hreinlega rústuðu allri mögulegri samkeppni. Atriðið þeirra var STÓRKOSTLEGT! Ég meina, intróið og umgjörðin eru svo yfirdrifið yndisleg að það er ekki annað hægt en að brosa! Og ég vil ekkert heyra um sönginn. Sjáið bara Kimberley bak við gulltjöldin í byrjuninni!! Er það ekki nóg fyrir ykkur?

Og já, The Promise er nú opinberlega búið að taka við toppsætinu af I Said Never Again (But Here We Are) fyrir bestu notkun á 1-2-3-4! byrjun. Heyr heyr og til hamingju!

 

 

ps. fylgjið þessum link og smellið á watch in high-quality ef þið viljið njóta stríðnissvips Kimbu til fullnustu!


Fólk er fífl, pt. 1

Kæru lesendur,

einhvern tímann á lífsleiðinni hafið þið án efa hugsað með ykkur að fólk sé fífl, einhverra hluta vegna. Kannski ekki í svo mörgum orðum, kannski ekki á svona grófan hátt, en ég leyfi mér að fullyrða að inntak merkingarinnar hafi verið keimlíkt hjá all flestum.

Lesendur góðir, þið eruð ekki einir. Ég, einnig, hef hugsað á svipaðan hátt. Efnistök þessa pistils, sem og þeirra sem honum munu fylgja, eru tileinkuð þessum tilfellum þegar okkur finnst, einfaldlega, fólk vera fífl.

Við byrjum á kvikmyndasýningu í Laugarásbíói.

Myndin sem um ræðir er My Bloody Valentine 3D, endurgerð samnefndrar myndar (sans 3D) frá 1981. Sú er kanadísk, nokkuð óþekkt, og ekkert sérstaklega merkileg nema horft sé á hana óklippta.

 my bloody valentine 3d ver2

Svona er söguþræðinum lýst á imdb.com:

„Tom returns to his hometown on the tenth anniversary of the Valentine's night massacre that claimed the lives of 22 people. Instead of a homecoming, however, Tom finds himself suspected of committing the murders, and it seems like his old flame is the only one will believes he's innocent.“

Þetta á sér allt stað í nýtísklulegri þrívídd.

Nú, til að byrja með, hver sá sem fer á þessa mynd, þessa endurgerð, í þeim tilgangi að upplifa eitthvert kvikmyndakonfekt hlýtur að vera fífl. Ég meina, er einhver á okkar tímum, post-Scream og allt sem þeirri mynd fylgdi, sem horfir á unglingahryllingsmyndir og býst við því að þær séu góðar? Í alvörunni góðar? Ég meina, til er fólk eins og ég sem hefur lúmskt gaman af þessari tegund kvikmynda en af allt öðrum ástæðum en flest fólk sem leggur leið sína í kvikmyndahús.

Til þess að orða þetta einfaldar: maður fer ekki á mynd eins og My Bloody Valentine 3D til þess að sjá eitthvað gott. Maður fer vegna þess að mann langar til að sjá blóðsúthellingar í þrívídd. Punktur.

Víkjum þá aftur að umræddu kvikmyndahúsi á umræddri sýningu. Ímyndum okkur að við séum að horfa á þessa mynd, og að við höfum svona la-la gaman af henni því hún er alls ekki leiðinleg en heldur alls ekkert góð, og að allt í einu fari gaurarnir tveir sem sitja fyrir aftan mann að tala um hversu léleg myndin er.

Þetta í sjálfu sér er ekkert ófyrirgefanlegt, enda eru þeir bara að segja það sem allir eru að hugsa: myndin er léleg. En þeim nægir ekki að segja það upphátt, heldur verða þeir að ræða það líka af hverju myndin er léleg. Leikurinn, til dæmis, er þeim ekki að skapi og þeir minnast á það (nokkrum sinnum) að leikhópurinn þurfi ekki að halda í sér andanum þegar kemur að afhendingu Óskarsverðlaunanna í mánuðinum. Ha-ha.

Ég get alveg ímyndað mér þá fyrir aftan mig á nýju endurgerðinni á Friday the 13th, að ræða hversu léleg nýja myndin er miðað við yfirburðar kvikmyndalistina sem bar fyrir augu í þeirri upprunalegu

EPIC FAIL.

Þér finna sig einnig knúna til að ýkja hlátur í hvert skipti sem eitthvað „hallærislegt“ gerist (hallærislegt í merkingunni eitthvað sem gerist vanalega í hryllingsmyndum; fólk sem deyr á sóðalegan hátt; fólk sem tekur vitlausar ákvarðanir; o.s.frv., o.s.frv.) Eftir mjög stuttan tíma er þetta orðið óþolandi og þá verður manni kannski spurn:

Hvort er hlægilegra: a) spaugilega léleg unglingahryllingsmynd eða, b) gaurarnir tveir sem borguðu sig inn á sömu mynd (sem heitir My Bloody Valentine 3D) og borguðu ekki bara almennt gjald heldur heilar 1200 kr. fyrir afnot af þrívíddargleraugum og sitja svo og telja sig gera gáfulegt grín að myndinni með því að kommenta á það sem fram fer á meðan kvikmyndagerðarmennirnir græða milljónir dollara (a.m.k. 50 milljónir enn sem komið er) á viðskiptum m.a. þeirra? Ég minni á að myndin sem þeir borguðu sig inn á heitir My Bloody Valentine 3D.

Vísbending: SVARIÐ ER EKKI VALMÖGULEIKI A).

Um myndina sjálfa er hægt að segja það að hún er ekki jafn góð og upprunalega kanadíska myndin, sem var sjálf ekkert sérstaklega góð hvort eð er. Þrívíddartæknin, hins vegar, er merkileg og kemur á óvart. Manni finnst maður vera að horfa á, ja, veruleikann en ekki flatt tjald. Það tók þó langan tíma að venjast gleraugunum og ég er ekki einu sinni viss um að mér hafi tekist að venjast þeim fullkomlega. Tæknin er sannarlega flott en það á enn eftir að laga hitt og þetta.

Ef það er satt sem ég heyri, að þar sem tæknin er fullkomnust þá þurfi maður engin gleraugu heldur sjá vel staðsettir myndvarpar um að skapa þrívíddina beint fyrir augum manns, þá hlakka ég til að sjá slíka tækni hér á landi!


Þegar maður nennir ekki að blogga skrifar maður lista

Síðustu daga hef ég gert fátt annað en að horfa á óháðar hryllingsmyndir, fokdýrar Hollywood myndir, stundað atvinnuleit af miklum eldmóð og tapað í pöbb-quizzum.

Meðal hápunkta þessara daga:

* Atvinnuleitin tókst það vel að ég fékk vinnu! Veió!

* Tókst að tryggja mér tvö DJ gigg á næstu dögum (14. feb og 20. mars! MARK YOUR CALENDAR!) 

* Slumdog Millionaire er með betri myndum sem ég hef séð lengi.

* Valkyrie er með betri Tom Cruise myndum sem ég hef séð lengi (þetta er í sjálfu sér ekki mikið hrós, en hún var samt góð).

* Faye Dunaway er ÓTRÚLEG leikkona. Mommie Dearest er ógleymanleg mynd ... ji, ég veit ekki hvar ég á að byrja.

mommiedearest 

* Ég fékk nýja og góða hátalara á spottprís á útsölu hjá BT.

* Jamie Blanks, leikstjóri uppáhaldslélegumyndarinnar minnar (Valentine), fór aftur heim til Ástralíu eftir að Valentine floppaði stórt og gerði ódýra mynd sem heitir Storm Warning. Sú mynd er yndislega ógeðsleg og skemmtileg.

* Kláraði The Dead Zone (mjög mjög góð) og byrjaði að lesa Yosoy eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur (góð, enn sem komið er).

Meh-hlutar þessara daga:

* Sá óháðu myndina Donkey Punch (meh).

* Sá óháðu myndina Right at Your Door (meh, deilt með fimm, sinnum 0 = 0).  

* Fékk aftur æði fyrir Sugababes eftir nokkrar vikur af stanslausu Girls Aloud áreiti.

Nadir:

*  Sá fokdýru Hollywood myndina Confessions of a Teenage Drama Queen með LezLo Bihan í aðalhlutverki. Sjaldan hef ég séð jafn hryllilega mynd. Jesús, ég hélt ég myndi fá flog. Og ég FÍLA LezLo! Ég vona að SaMAN hafi áhrif á hana til hins betra ... 

lindsay lohan tenslip s 

* The Black Cherries TÖPUÐU (já TÖPUÐU) Pöbb-Quizzi Q-Bars eftir tveggja vikna óbrotna sigurgöngu. VIÐ MUNUM MÆTA TVÍEFLD Í NÆSTU VIKU, SJÁIÐ BARA TIL! 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband