Rogue (2007)

 2qapxtu

Fyrir nokkrum árum komu foreldrar mínir heim frá Bandaríkjunum og gáfu mér kvikmyndina Wolf Creek. Þetta væri ekki frásögum færandi nema fyrir það að Wolf Creek er ansi hrottaleg og ógeðfelld hryllingsmynd og miðað við það sem ég hafði heyrt um hana, þá var ég ekkert sérstaklega spenntur fyrir henni.

En fyrst ég átti hana núna, þá fannst mér ég verða að horfa á hana, sem ég og gerði, og - voulá! - mér fannst hún bara ansi fín. Flott, vel gerð, spennandi og svolítið andstyggileg. Ég er enginn sérstakur aðdáandi hinna svokölluðu „torture-porn“ mynda sem fylgdu í kjölfar Hostel, en sem betur fer er leikstjóri Wolf Creek, Greg McLean, svona hundrað sinnum færari en Eli Roth.

Ég var því ansi spenntur þegar ég heyrði að næsta mynd McLeans yrði Rogue - spennumynd um risakrókódí. Að mínu mati er alls ekki nóg til af myndum um risakrókódíla. Sú síðasta sem var næstum því þess virði að sjá var Lake Placid, sem flaut þó nær eingöngu á nokkrum góðum bröndurum og skemmtilegum leikarahóp. 

Þessi tegund kvikmynda - þ.e. menn vs. náttúran/dýr/skrímsli - er í miklu uppáhaldi hjá mér, og ef sagan gerist í frumskógi þá eru næstum því 100% líkur á því að ég eigi eftir að fíla hana, sama hversu léleg hún er. Sjá t.d. Anaconda og Congo, sem eru snilldarverk í dulargervi. 

Ég byrjaði því að horfa á Rogue með góðar vonir um að hún yrði mjög skemmtileg mynd. Hvernig æxluðust svo málin?

Jú, ég get ekki neitað því að myndin var skemmtileg. Hún byrjar ansi vel, með skemmtilegum persónum og góðum áströlskum húmor. Ástralska landslagið er sömuleiðis mjög fallegt og fyrri hluti myndarinnar lítur afskaplega vel út. McLean byggir spennuna upp hægt og rólega - kannski einum of hægt og rólega fyrir minn smekk - og passar sig á því að sýna krókódílinn stóra ekki of mikið. Óheppnar sögupersónur hverfa sporlaust og einu ummerkin um hvarfið er hreyfing í ánni sem þær stóðu við o.s.frv. Allt er þetta ágætlega gert en ekkert sérstaklega spennandi.

Þegar atburðarrásin fer almennilega í gang verður skemmtilegra að horfa, og þó svo myndin verði aldrei beinlínis leiðinleg þá er það ákveðinn galli að hún fer mjög troðnar slóðir í því hvernig eftirlifendurnir reyna að koma sér undan krókódílnum og í því hvernig krókódíllinn „geymir“ fórnarlömb sín. Miðað við það hversu McLean virðist vera fær um að stjórna myndavélinni og hvernig hann nær að skapa áhugaverðar persónur, þá er hann ekkert sérstaklega laginn við að búa til frumlegar aðstæður til þess að koma persónunum og myndavélinni fyrir í. 

Stóran hluta myndarinnar gat ég heldur ekki annað en séð hliðstæður milli hins ástralska McLeans og hins breska Neil Marshall. Báðir byrjuðu þeir feril sinn með ódýrum myndum sem eru voða þeirra-lenskar og tengjast úlfum á einn eða annan hátt (þ.e. Marshall með Dog Soldiers og svo Wolf Creek hjá McLean). Og svo fylgja þeir þessum fyrstu myndum sínum eftir með „menn vs. náttúran“ mynd; Marshall með hina stórkostlegu The Descent og svo McLean með Rogue. En þar sem Marshall virðist fara fram frekar en eitthvað annað, þá er ekki annað hægt að segja um Rogue en að hún er veldur talsverðum vonbrigðum miðað við forvera hennar. 

Þó svo skemmtileg B-hryllingsmynd um risakrókódíl sé alltaf ánægjuleg afþreying, þá vonaðist ég til þess að McLean myndi krydda aðeins upp á klisjuna. En því miður steinliggur Rogue í meðalmennskunni hvað varðar söguþráð og framvindu, og það eina sem upphefur hana er góður húmorinn og fínir leikarar. Ja, eða fín leikkona: Radha Mitchell er mjög skemmtileg í sínu hlutverki, en því miður fær hún ekki að vera aksjón-konan sem hún er kynnt sem í byrjun.

Ég mæli því eingöngu með Rogue fyrir þá sem fíluðu t.d. Anaconda, þó svo mér hafi persónulega fundist sú mynd miklu skemmtilegri. Það er enginn Jon Voight í Rogue. :( 

2.5/5 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband