Matur matur matur

Í gær var Thanksgiving hátíð hérna í Am'ríku og ég var svo heppinn að fá heimboð til alvöru am'rískrar fjölskyldu í alvöru am'rískan Thanksgiving kvöldmat. Það var semsagt hún Katie Goldammer, herbergisfélagi Aliciu frá Frakklandi, sem bauð mér, henni og Juliu frá Þýskalandi heim til sín, sem var voða voða yndælt af henni.

Það eina sem við vissum um þessa skemmtilegu hátíð er sú staðreynd að fólk borðar ofsalega mikið allan daginn. Sounds good.

Týpískur amerískur Þakkargjörðarmatseðill er ca. eftirfarandi:

#1 Forréttir - Forrétti skal borða á meðan horft er á fótboltaleikinn í sjónvarpinu, eins og við gerðum (með öðru auganu ...) Hér getur heimbjóðandinn boðið upp á ýmislegt. Ég frétti af fólki sem bauð upp á snittur með reyktum laxi, meðal annars. Hjá Katie fengum við kex og osta og svo tortilla flögur og salsa sósu.

#2 Aðalréttur - Númer eitt, tvö og þrjú er kalkúnninn góði. Því stærri því betri. Hér er talað um Turkey-massacre season ... Nice. Kalkúnninn er svo fylltur með mjög góðri fyllingu og er borðaður með kartöflumús og trönuberjasósu (sem var reyndar trönuberjahlaup í okkar veislu). Með þessum rétti er einnig boðið upp á brauð, brúnaðar sætar kartöflur og sveppa-bauna-rétt einhvern (mjög góður). Goldammer fjölskyldan bauð einning upp á fáránlega gott ís-hlaup og óáfengt hvítvín.

#3 Eftirréttur - Ef það er eitthvað pláss eftir, þá er úr mörgu að velja þegar kemur að eftirréttum. Venjulega, eða svo er mér sagt, er boðið upp á annað hvort apple-pie eða pumpkin-pie en í minni veislu var boðið upp á þrjár mismunandi bökur - þessar tvær og svo pecan-pie líka. Eplabakan var heimagerð og var framreidd með annað hvort vanilluís eða þeyttum rjóma. Svo var líka kaffi með.

Ég sver það að eplabakan var það besta sem ég hef nokkurn tímann smakkað hérna í Bandaríkjunum. Ég er ennþá að hugsa um hana. Því miður var ég svo sprunginn eftir hana að mér tókst ekki að smakka hinar bökurnar, en þær voru örugglega mjög góðar líka.


Goldammer fjölskyldan (mínus pabbi og bróðir) með skiptinemunum!

Heima hjá Katie var mjög gaman. Fjölskyldan var alveg súper-amerísk. Pabbinn lá í sófanum að horfa á fótboltann þegar við mættum og stóð varla upp (og sagði ekki orð) fyrr en maturinn var næstum því tilbúinn. Mamman var að kenna eldri systur Katie að elda máltíðina svo hún lá mestallan tímann í rauðum Laz-Y-Boy stól sem var umkringdur öllu dótinu hennar - fartöluv, skjölum, pilluboxi - sem hún gat teygt sig í án mikillar fyrirhafnar. Hún var líka steinasafnari mikill og var með íslenskan stein um hálsinn sem var þriggja milljón ára gamall og finnst aðeins á Íslandi og á Grænlandi. Þegar maturinn var búinn settist hún aftur í stólinn sinn fyrir framan sjónvarpið því það voru þrjár eða fjórar Johnny Depp myndir í sjónvarpinu - hún er mikill aðdáandi. Bjó meira að segja til Johnny Depp avatar-karakter fyrir Nintendo Wii íþróttaleik og hann er einn af vinsælustu karakterunum á netinu.

Meðal annarra fjölskyldumeðlima voru systkini Katie, bróðir og systir, og svo hjartveikur hundur og orðljótur páfagaukur sem var nýbúinn að læra að segja "Goddammit"! Já, þetta var mjög skemmtilegur dagur!

Nokkrum dögum fyrr fór ég á Tónleika #3 hérna í Minnesota. Ég fór að sjá M.I.A. sem kannski einhverjir kannast við. Ef ekki, þá er alveg þess virði að kynna sér þessa mögnuðu konu. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að lýsa tónlistinni hennar, en þið getið hlustað sjálf. Uppáhaldslagið mitt með henni er Jimmy ...



En vinsælasta lagið um þessar mundir er örugglega Boyz ...



Og svo er Paper Planes alveg magnað lag ...

Tónleikarnir voru hreint út sagt GEÐVEIKIR! Ég hef ekki farið á marga tónleika um ævina, en þetta var alveg pottþétt magnaðasta crowd sem ég hef upplifað. Stemningin á staðnum (First Avenue - stofnaður af sjálfum Prince og sést talsvert í Purple Rain bíómyndinni) var ótrúleg. Fólk var alveg að missa sig yfir þessari listakonu. Ég held að ég hafi síðast séð fólk svona æst þegar ég sá Fugees árið 1996 - og ég er örugglega búinn að ýkja upp þær minningar umtalsvert.

Núna er semsagt Thanksgiving break svo það er frekar rólegt á heimavistinni. Flestir skólakrakkarnir eru farnir heim yfir helgina. Flestir nema við skiptinemarnir. Og herbergisfélaginn minn, sem virðist ekki eiga sér neitt almennilegt líf. Hann húkir inni í herberginu annað hvort fyrir framan tölvuna eða fyrir framan sjónvarpið og virðist ekki gera neitt af viti. Svo er hann næstum því búinn að snúa sólarhringnum gjörsamlega við - svaf í dag t.d. til rúmlega fimm og fer ekki að sofa fyrr en ... einhvern tímann. Ég er alltaf sofnaður þegar hann fer að sofa. Það er alveg magnað hvað hann getur nýtt daginn illa. Ég er mjöööööög pirraður yfir því að geta ekki gert neitt inni í herberginu því að hann er sofandi þar. Ef hann verður svona á morgun þá gef ég honum framyfir hádegi og svo dreg ég gluggatjöldin frá glugganum, kveiki ljósin og blasta nýja Girls Aloud laginu ... Ain't do doubt about it, ain't no doubt about - GIRL OVERBOARD!

Úúúú og eitt annað ... í tilefni af Thanksgiving - hérna er gervitrailerinn hans Eli Roths fyrir hryllingsmyndina "Thanksgiving" sem hann gerði fyrir Grindhouse-tilraunina sem mistókst gjörsamlega í Bandaríkjunum (þ.e. kvikmyndirnar Death Proof of Planet Terror sem Quentin Tarantino og Robert Rodriguez gerðu og voru sýndar sem "double-feature" en svo í sitthvoru lagi í Evrópu ... yes? ... no? ... whatever!)



Þetta er ekki trailer fyrir alvöru mynd, en þetta er mjöööög fyndið. Og það er mikið hrós frá mér varðandi Eli Roth, því ég er EKKI mikill aðdáandi hans!

Svo eru fleiri myndir af hinu og þessu nýlegu hérna!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, Þakkargjörð er átveisla mikil. Og "Thanksgiving" væri ábyggilega mjög skemmtileg mynd. En ef hún sé ekki gamanmynd, þá sé hún samt ýkt fyndin.

BKNY (IP-tala skráð) 24.11.2007 kl. 09:02

2 identicon

Haha, ekkert mál, kennum bara tímamismuninum um ;)

Hlakka til að fá hana, hlakka til að sjá hana!

Bryndís (IP-tala skráð) 24.11.2007 kl. 15:00

3 identicon

hahaha - myndin af húsmóðurinni í leisíbojstólnum í baksýn er herfilega fyndin.

guðrún bók (IP-tala skráð) 24.11.2007 kl. 15:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband